19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

255. mál, eignakönnun

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef ekki haft langan tíma til að kynna mér þetta frv., og mun ég því ekki ræða einstakar gr. frv., heldur það almennt, og benda á nokkur atriði, sem snerta meðferðina á málinu, og hvernig það liggur fyrir. Í fyrsta lagi tel ég það vera í hæsta máta lítt afsakanlegt af hæstv. stjórn að hafa látið það dragast svo, að málið kæmi fram. Stjórnin var mynduð snemma í febr., og þá lýsti hún því strax yfir, að hún mundi koma með eignakönnun. Svo er mér kunnugt um, að frv. er búið að liggja lengi hjá hæstv. stjórn. Það er því kominn 2½ mánuður síðan hæstv. stjórn lýsti því yfir, að hún mundi fara út í eignakönnun. Þetta hefur verið mikið umtalað, og þetta umtal hefur haft ýmiss konar truflandi áhrif, sem eðlilegt var, þar sem stjórnin hafði sagt, að hún mundi fara út í þessa hluti. Menn hröðuðu sér að koma undan peningum sínum, á meðan ekki var vitað, hvernig þessu yrði háttað.

Hæstv. fjmrh. fór nokkrum orðum um það, hvernig þessu háttaði í nágrannalöndunum, og er það að vissu leyti rétt, að þar er um önnur skilyrði að ræða en hér, þar sem aðaltilgangurinn var að ná til þess gróða, sem skapazt hafði við óeðlilegt samstarf við þýzku setuliðin, þess, sem menn höfðu getað grætt í skjóli þeirra og í þessum löndum var talið svik við þjóðina. Þetta er ekki fyrir hendi hér og þó er alltaf talað um það sem eina aðalástæðuna til þess að fara í þessa eignakönnun að ná af þeim, sem mestar tekjur höfðu á stríðsárunum af fjárhagslegu samstarfi við setuliðið og innflutningsverzlun, en hér er um hóp manna að ræða, sem hefur haft gífurlegar tekjur, sérstaklega innflytjendurnir. Það fjármálaástand, sem þá skapaðist, hefur orðið þess valdandi, að menn græddu svo stórkostlega, að þess munu engin dæmi áður. Gagnvart þessum mönnum, sem nú sitja yfir verzlunargróðanum og fjármagninu í landinu, gerir þetta frv. hæstv. stjórnar ekki miklar ráðstafanir. Hjá þeim þurfti fyrst og fremst að hreinsa til, og það skyldi maður ætla, að kæmi einmitt fram í þessu frv., því að hjá þessum mönnum er fyrst og fremst undandregins fjár að leita. En frv. er ekki miðað við það að ná þessum gróða fram. Þessir menn, innflytjendurnir, hafa sömu aðstöðu og við venjuleg skattaframtöl til þess að koma eignum undan. Það má að vísu framkvæma rannsókn á „vörulager“, en það er undantekning, ef það skal gert. Því geta þeir falið í vörum, vélum og fasteignum stórkostlegar fjárhæðir og einnig með eignatilfærslum forsvarað mikið fé, ef þessi fyrirtæki eru ekki rannsökuð. En þetta frv. nær aftur vel til þeirra, sem eiga smáupphæðir, sem þeir geta ekki falið í fyrirtækjum eða vörum, þeir verða fyrst og fremst að gera fulla grein fyrir sínum eignum, sem eru í bönkunum eða skuldabréfum, og flestir þeirra eru í mjög dýrum bústöðum, svo að það kostar þá skuldabyrði að verða að lána ríkissjóði peninga sína, því að þeir geta ekki gripið til þess ráðs. Það er þannig í þessu máli, að með þessu fyrirkomulagi verða það þeir, sem hafa stórar „forretningar“ og mikla veitu, er hafa nóg ráð. En hinir, sem minna hafa, verða að leggja allt á borðið. Það er líkt og með skattalöggjöfina, allir launamenn verða að greiða af sínum tekjum, en þeir, sem meira hafa og eiga í alls konar „forretningum“, hafa hundrað aðferðir til þess að fela sitt fé og svíkja það undan skatti. Þetta er vitað mál og mjög alvarlegt mál.

Mér virðist, að afleiðingin af þessu frv. verði sú, að þeir stærri, sem eiga verulegar eignir, fá syndakvittun, en hinir, sem ef til vill eiga nokkra peninga, hafa t. d. selt húseign, verða stimplaðir opinberir skattsvikarar eða verða að festa sitt fé í skuldabréfum, sem þeir hafa ekki neinar tekjur af.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar nú, en mun gera það síðar.