21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Hv. frsm. minntist á frv., sem flutt var í Ed. 1944, um eignaraukaskatt, og að þar hafi verið gert ráð fyrir að miða við skattaframtölin og þar hafi ekki verið till. um eignakönnun, þó að ljóst sé, að þörf hafi verið á því, sérstaklega með stórgróðann. En ég er ekki fyrst og fremst að ásaka stjórnina fyrir að miða við skattaframtölin, heldur hitt, að nákvæm og róttæk rannsókn er látin fara fram hjá þeim smærri, þeim, sem ekki reka fyrirtæki, en eiga eignir sínar í seðlum, bankainnistæðum eða verðbréfum, en framtöl stofnana eru látin nægja. Annaðhvort átti að miða við öll framtöl eða hafa almenna eignakönnun, og hv. frsm. viðurkenndi. að stjórnin miðaði við framtöl stóreignamanna, en ekki hinna smærri. Þær aðgerðir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru alveg tæmandi gagnvart þeim smærri, en litlar sem engar gagnvart hinum. Þetta er svo mikið ósamræmi, að ekki er sæmandi fyrir hv. Alþ að samþykkja það, enda er þetta engin eignakönnun, því að eignakönnun er það að kanna, hvort framtölin séu rétt, en sé við þau miðað, er ekki um neina könnun að ræða. Það mun vera rétt hjá hv. þm. V-Ísf., hver var ástæðan til þess, að hann var ekki meðflm. að þáltill., sem allir aðrir þm. Alþfl. fluttu fyrir síðustu kosningar. En hv. þm. V-Ísf. veit þó, og þeir töldu það þá, flokksmenn hans, þessir 6, að það væri einhvern stórgróða að skattleggja. Og í Alþýðublaðinu og ræðum alþýðuflokksmanna fyrir kosningarnar, sérstaklega hv. 4. þm. Reykv., var mjög eindregið bent á það, að ef menn vildu, að stórgróðinn yrði skattlagður, þá skyldu þeir kjósa Alþfl., og er áreiðanlegt, að margir hafa kosið Alþfl. einmitt vegna þessarar afstöðu, en nú er það fram komið, hverjar efndirnar urðu, en það er rétt, að hv. þm. V-Ísf. tók ekki þátt í þessum skrípaleik.

Það er rétt, að það er ekki hægt að bera saman eignakönnun hér á Íslandi og í Danmörku og Noregi, þar sem hún var miðuð við að ná til manna, sem störfuðu á glæpsamlegan hátt með innrásarherjunum og þurfti því að taka öðrum tökum en hér, því neita ég engan veginn.

En það verður að vera svo, að ef framkvæma á eignaskoðun, að gera það með sanngirni. Það má ekki láta menn sitja við svo misjafnar aðgerðir eins og hér virðist eiga að gera með þessu frumvarpi.