21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. um þetta frv., að tilgangurinn með því sé m. a. sá að rannsaka, hvort skattaframtölin væru rétt, og nú ætti að komast fyrir það, hverjar eignir þjóðarinnar væru og hvað væri hulið í sambandi við skattaframtöl. Þá hefur verið bent á það, að vegna þessara framkvæmda og með þeim yrði stefnt að því, að skattaframtölin yrðu miklu réttari hér eftir en hingað til hefði verið.

Þetta tvennt er ákaflega lofsvert og ekkert nema gott um það að segja. En í sambandi við það langar mig til að bera fram tvær spurningar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að nafnskrá verðbréf á þeim degi, sem eignakönnun fer fram. Mig langar til að spyrja að því, hvort slík leiðrétting yrði til frambúðar, þannig að verðbréf, banka- og sparisjóðsinnstæður yrðu nafnskráðar áfram. Ef svo skyldi vera, að hæstv. ríkisstj. hefði tekið þá ákvörðun að leiða þetta í lög, þá væri hér stigið stórt spor í þá átt að koma hér á réttum framtölum. En í þessu frv. er þetta ekki fyrirhugað, og sé ásetningurinn að hafa það ekki svo framvegis, þá sýnist mér augljóst mál, að mjög fljótlega muni allt falla í sama horfið aftur í þessum sökum um framtöl manna.

Þá vildi ég aðeins vekja athygli á ákvæðum 4. gr. þessa frv., en þar segir, að skuldabréf þau, sem þar um ræðir, skuli vera til sölu frá 15. júní til 1. ágúst 1947 og Landsbanki Íslands annist söluna. Og skulu bréfin fást keypt á þeim stöðum og hjá þeim aðilum, sem bankinn ákveður í samráði við fjmrh. Það er kunnari staðreynd en frá þurfi að segja, að bankarnir þrír eru í raun og veru allir ríkiseign, þó að Landsbankinn sé nefndur þjóðbanki, þá eru hinir bankarnir í eign ríkisins ekki síður.

Nú virðist mér það augljóst mál, að verði um einhverja verulega sölu að ræða á þessum skuldabréfum, þá muni hún að verulegu leyti ná út yfir sparisjóðsinnstæður í bönkunum. Og geri ég ráð fyrir, að allmikið af þeim sé geymt á sparisjóðsdeildum bæði Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Mér sýnist þá, eftir því sem hér er gert ráð fyrir, að fara mundi talsvert af sparifé Útvegsbankans og Búnaðarbankans yfir til Landsbankans. Mér virðist þetta vera töluverð röskun á milli bankanna. Og ég vildi því vekja athygli á því, hvort ekki væri hægt að breyta frv. þannig, að bætt væri úr þessu á þann veg, að bankarnir allir önnuðust þessa sölu.

Þá mun 17. gr. vekja nokkra furðu manna. Þar er svo fyrir mælt, að eignir, sem draga má undan skatti, mega nema 25 þús., kr. Þær eiga að vera skattfrjálsar, ef sannanlega hafa orðið til fyrir 1. jan. 1940. En hafi slíkt átt sér stað eftir þann tíma, þá koma ekki þarna nema 15 þús. til greina, sem verða skattfrjálsar. Ég sé ekki nein ljós rök, sem liggja að þessu. Reyndar verður að gera ráð fyrir, að þetta hafi verið hugsað á þá leið, að þar sem syndirnar væru orðnar svo gamlar, svo sem 7 ára, þá væru þær taldar fyrndar. En það er geysilegt ósamræmi á milli þessara upphæða, því að 25 þús. kr. fyrir stríð og 15 þús. kr. á stríðsárunum eru ákaflega ósambærilegar upphæðir, þegar tekið er tillit til verðgildis þeirra. En að svíkja undan skatti 15 þús. kr. á stríðsárunum eru hreinir smámunir í samanburði við hina upphæðina.

Ég óska svo eftir upplýsingum um það, hvort meiningin sé að taka upp sem almenna reglu að nafnskrá innistæður í bönkum og sparisjóðum.