29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Eyf. vil ég benda á það, að ég vonast þá til þess, að sá hv. þm. fylgi mér að málum í því að fella niður 1. gr. frv. alveg, ef ég ber ekki fram brtt. við frv. Getur verið, að ég sættist á það að bera engar brtt. fram við frv., ef sú gr. verður felld niður, og alveg sérstaklega eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh. Ég tel það algerlega óviðeigandi að setja þessa meginbreyt. í l. á þessu stigi málsins, ef ekki má breyta l. á öðrum sviðum. Ég er ekki viss um, að menn geri sér ljóst, hvaða áhrif þessi breyt. hefur, nefnilega þau, að fjársterkustu fyrirtækin á landinu eru öruggust um það að geta flutt inn vörurnar. Og í sambandi við það vil ég benda á, að mér er tjáð, sem ég hygg rétt, að á þessu ári hafi verið veitt mjög mikil timbur-innflutningsleyfi á Svíþjóð, en sem fyrst um sinn koma eingöngu til hagnaðar fyrir alveg ákveðin fyrirtæki, sem var fyrir það, að útflutningur fékkst ekki frá Svíþjóð til annarra fyrirtækja íslenzkra en þeirra, sem fyrst og fremst gætu símað til útflytjendanna sænsku númer á sínum leyfum og í öðru lagi gætu tryggt flutning á timbrinu hingað, sem vitanlega gátu hinir fjársterkustu aðilar. En margir aðilar, sem fengu innflutningsleyfi fyrir sænsku timbri, urðu því að sæta þeim neyðarkjörum að taka innflutning á timbri frá Rússlandi, en síðar hafa þeir svo fengið aðstöðu til að nota innflutningsleyfið á Svíþjóð, sem var hagkvæmara. Þeir hafa því orðið að láta innflutninginn frá Svíþjóð falla niður eða fá innflutning frá báðum þessum stöðum. En þessi fyrirtæki, sem fjársterk voru, voru búin að hlaða skipin í Svíþjóð, áður en hægt var að gefa út hér heima til hinna smærri númer á innflutningsleyfum þeirra fyrir timbri.

Ég hef ekki þá sögu að segja af viðskiptaráði, að ég treysti því eins og Guði almáttugum. Síður en svo. Og ég vil síður en svo gera vald þeirra meira, sem í því eru, þannig að þeir geti beitt ákvæði 1. gr. þessa frv. samkv. þeirri aðferð, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir. Og ef hv. þd. samþykkir þessa breyt., sem felst í 1. gr. frv., tel ég, að ég hafi óbundnar hendur til þess að koma með till. um hverja þá breyt. á l., sem ég teldi nauðsynlega, við 2. eða 3. umr. þessa máls. En ef samkomulag verður um það að breyta engu í l. sjálfum, heldur aðeins að framlengja l. til ákveðins tíma, liggur málið öðruvísi fyrir. Þá get ég fallið frá því að bera fram brtt. við frv. í trausti þess, að hæstv. ráðh. taki þessi mál til rækilegrar athugunar, sem ég veit, að hann hefur vilja á að gera.

Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir hans greinagóðu svör. Ég þurfti ekki upplýsingar um það að vísu út af fyrir sig, að engin væri sú stofnun til, sem gæti tilnefnt menn í viðskiptaráð. Mér var það ljóst. En það er deilt um það, hvaða rétt útvegsmenn eigi að eiga til þess að eiga fulltrúa í viðskiptaráði, og þar erum við, hæstv. ráðh. og ég, ekki alveg á sama máli. Ég vil ekki viðurkenna, að verzlunarstéttin — með allri virðingu fyrir þeirri stétt — á nokkurn hátt geti átt hálfan rétt á móts við þá aðila, sem framleiða gjaldeyrinn, til þess að eiga fulltrúa eða ráðgjafa til að ráða um það nokkru, hvernig gjaldeyrinum er varið, sem útgerðarmenn afla (SAÓ: Það er fleira fólk, sem vinnur að þessu.) Ég veit, að vinnandi stéttin hefur sinn aðila í viðskiptaráði, og sé ég ekki ofsjónum yfir því. En ég tel, að það sé ekki heppilegt á neinn hátt — og það mun sýna sig í framtíðinni —, að einmitt þeir menn, sem standa að framleiðslunni, hvort sem það er heldur vinnandi stéttin eða útgerðarmenn sjálfir, eigi enga aðila í viðskiptaráði. Og nú er það svo um Landssamband íslenzkra útvegsmanna, að þar eru að miklum meiri hluta menn úr hinni vinnandi stétt. Því að hlutarsjómenn eru mikill meiri hluti þeirra manna, sem eru í því félagi, menn, sem lifa eingöngu á sinni vinnu. Og ég tel, að það sé rangt og ósæmilegt að útiloka þá menn frá því að geta að minnsta kosti vitað um, hvað sé gert við þann gjaldeyri, sem þeir eru að afla. Og það fyrirkomulag getur alls ekki orðið til frambúðar.

Hins vegar finnst mér ekki, að fyrir það þurfi að þakka alveg sérstaklega, þó að útvegsmönnum sé ekki synjað um gjaldeyrisleyfi til innflutnings á nauðsynlegum vörum til síns atvinnurekstrar. Þó finnst mér, að mönnum, sem í viðskiptaráði eru, finnist, að það sé eitthvert náðarbrauð, sem þeir velta. Ég minnist þess frá árunum 1930–1939, þegar allur gjaldeyririnn var tekinn af útgerðarmönnum og þeim var neitað um gjaldeyri til þess að endurnýja sín útgerðartæki. Og ég þekki vel, að það var þó þeirra verk, útgerðarmannanna, að það var þó töluvert aukin á því tímabili gjaldeyrisgeta þjóðarinnar, þrátt fyrir alla rangsleitni, sem útvegsmenn voru beittir á þeim árum. Og ég held, að þjóðinni væri ekki hollt að fara inn á þá braut aftur.

Hæstv. viðskmrh. taldi, að það mundi sennilega verða erfitt að fá menn með nægilega þekkingu, ef ætti að steypa saman stjórn eða eftirliti með innflutningnum og útflutningnum og setja undir eitt og sama ráðið. Ég verð að segja, að mér finnst, að sumir aðilar, sem valdir hafa verið á öllum tímum í viðskiptaráð og viðskiptanefndir, hafi ekki verið algerlega valdir með það fyrir augum, að þeir hefðu þekkingu á málunum, sem þeir hafa átt um að fjalla. Ég vil ekki benda á neinar persónur í því sambandi. En ég er ekki einn um það að segja, að þar hafi fyrst og fremst verið önnur sjónarmið, sem farið hafi verið eftir, heldur en að þeir menn væru sem færastir um sitt starf.

Mér þykir nauðsyn bera til þess, að þessi mál öll verði tekin til rækilegrar athugunar síðar og að reynt verði að sameina þessar stofnanir, sem hér er um að ræða, eins og hér hefur verið minnzt á. Skal ég svo ekki halda uppi frekari umr. um þetta mál, nema tilefni gefist til.