07.11.1946
Neðri deild: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Mér þykir varla taka því að svara þessari ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ef þetta væri ungur þm., sem hefði nú verið að halda jómfrúræðuna og hefði gaman af að hlusta á sjálfan sig, þá hefði ég skilið þetta. En af eldri þm. er þetta undarlegt hjal, eins og það væri eitthvert nýmæli á Alþ., að það stæði í l., að það ætti að breyta einhverjum l., án þess að nákvæmlega sé til tekið í þeim l., sem samþ. eru, hvaða l. á að breyta. En slíkt er ekkert nýmæli. Því að í endi laga er oft á þá leið til tekið, að samkv. þessum l. — þ.e. sem samþ. eru í það og það skiptið - skuli þau l. breytast, sem komi í bága við þau nýju l., sem verið er að setja.

Það eru til þrjár leiðir, sem hægt er að fara í svona máli. Sú fyrsta er að breyta öllum l., sem þarna koma til greina. Önnur er sú að taka þennan samning og gefa honum einfaldlega lagagildi á Alþ., eins og gert var t.d. í l. nr. 33/1933, um heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í samkomulagi um viðskiptamál milli Íslands og Noregs. — og eru sjálfsagt mörg fleiri dæmi fyrir því. Og svo er þriðja aðferðin, sú sem hér er farin. Ég — þótt ég beri ábyrgð á þessu frv. — hef ekki tekið ákvörðun um það, hver leiðin af þessum væri farin, heldur embættismennirnir, sem um þetta fjölluðu. Þeim þótti þessi leið eðlilegust, og ég get fallizt á það. (EOI: Hún er ekki eðlilegust.) A.m.k. heppilegust. Annars mundi hún ekki hafa verið lögð til. Hún er brotaminnst og nær sama tilgangi og hvor hinna sem er.

Annars virðist mér ekki ræða hv. 2. þm. Reykv. gefa tilefni til þrætu. Ég verð að líta á hana sem leifar af mótþróa gegn því máli, sem á sínum tíma var rætt hér og var undanfari þessa frv. Um það er ekkert að segja. En hvaða form er haft í þessum efnum, getur ekki verið neitt aðalatriði, hvorki fyrir þennan hv. þm. né neinn annan.