22.12.1946
Neðri deild: 48. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég vil hér aðeins fara nokkrum orðum út af atriði í 2. gr. frv. eins og hún er nú, og er það í sambandi við ábyrgð á hraðfrysta fiskinum. Þar segir í lok gr.: „Skal verð annarra fisktegunda vera tilsvarandi.“ Í frv. því, sem ég á sínum tíma lagði fyrir hv. fjhn. með beiðni um að flytja hér í hv. d., var gr. orðuð á dálítið annan veg, þannig að enginn vafi lék á því, að með öðrum tegundum hraðfrysts fisks væri líka átt við aðra pakkningu en þegar miðað er við kr. 1,33, sem er pakkningaraðferðin 7 lbs. (3 kg) í pergamentumbúðum. Ég hygg, að það sé í samræmi við það, sem fram kom hjá hv. frsm. fjhn., hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), að með orðalagi 2. gr. eins og hún er nú sé líka ætlazt til þess, að tekið sé tillit til þess, að fiskur sömu tegundar sé í mismunandi umbúðum, því að það getur verið æskilegt að hverfa til þess, að hraðfrystihúsin noti ekki eingöngu umbúðir, sem miðaðar hafa verið við 1,33, því að varan í þeim umbúðum er síður útgengileg en í minni umbúðum.