17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein) :

Ég hafði nú hugsað mér með tilvísun til fyrri ræðu minnar að flytja hér brtt. til 3. umr., og sé það eitthvað óþingleg aðferð, verður að virða mér það til vorkunnar sem nýjum þm.

En varðandi það sjónarmið í ræðu hv. 1. þm. Árn., að vit kynni að vera í því að breyta núgildandi l. í þá átt, að opinberir starfsmenn hefðu heimild til að þjóna frá 65 ára aldri til 70 ára, í stað þess, að heimildin er nú á valdi veitingavaldsins, þá er það mjög í samræmi við það, sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni. Að ekki náðust betri tengsl á milli okkar í allshn., stafar ef til vill af því, hvernig hagaði til, er málið var afgr., en þá voru ekki allir nm. á fundi. Reyna mætti því að komast að nánara samkomulagi milli 2. og 3. umr.

Ég álít of nærri embættismönnunum sjálfum gengið með því að hækka aldurshámarkið upp í 70 ár, en á það get ég fallizt, að það eigi ekki að vera á valdi veitingavaldsins, hvort embættismaður þjónar lengur eða skemur. Að því leyti erum við sammála. En ég er andvígur því sjónarmiði, að embættismenn eigi þess ekki kost að láta af störfum frá 65 til 70 ára. Ég fylgi málinu til 3. umr. með þessari forsendu, og ræðst þá um, hvort gerðar verða á því þær breyt., sem ég get sætt mig við.