17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. leggur hér til, að heimild verði veitt til þess að leigja Leikfélagi Reykjavíkur þjóðleikhúsið og fela félaginu rekstur þess, og í annan stað leggur hann til, að skemmtanaskattinum verði varið til þess að reisa samkomuhús utan Reykjavíkur. Það er vissulega þess vert að athuga, hvernig haga beri rekstri þjóðleikhússins, þannig að leikarar geti í framtíðinni búið við betri skilyrði en undanfarið hafa verið fyrir hendi. Það er raunar aðdáunarvert, hvað leiklistin hefur staðið með miklum blóma, þar sem eingöngu hefur verið um tómstundavinnu að ræða, og því æskilegt að geta bætt kjör leikaranna, sem fórnað hafa miklu í þágu þjóðarinnar með menningarstarfsemi sinni. Það er raunar ekkert á móti því að heimila Leikfélagi Reykjavíkur rekstur þjóðleikhússins, ef þessi félagsskapur væri nægilega öflugur til þess, en mig grunar, að hér sé verið að reisa félaginu hurðarás um öxl, ef það á að taka við þeirri stofnun, sem þjóðin hefur verið á annan áratug að reisa. Margir telja sjálfsagt að hafa að einhverju leyti kvikmyndasýningar í húsinu. Ég býst þó við, að salurinn sé ekki vel til þess fallinn. Hann er breiður og stuttur og geysihár og að öllu leyti óhagstæður til slíkrar notkunar að minni hyggju. Því held ég, að kvikmyndasýningar verði þar erfiðar.

Ég hef hér á þessu þingi borið fram till. um að þjóðnýta allar kvikmyndasýningar, og tel ég, að samþykkt þeirrar till. sé leiðin til að leysa þetta mál. Hér í Reykjavík ætti að afhenda eitt kvikmyndahúsið þeim aðila, er ætti að standa undir rekstri þjóðleikhússins. Viðvíkjandi skemmtanaskattinum þá er það næsta ósanngjarnt að taka skattinn af öllu landinu, þar sem hann rennur til húsbyggingar í Reykjavík. Þjóðleikhúsið verður fyrst og fremst fyrir Reykvíkinga og ætti því að vera reist fyrir fé, sem aflað er innan lögsagnarumdæmisins. Aftur á móti mælir ekkert á móti því, að skemmtanaskattur héðan úr Reykjavík renni til þjóðleikhússins. En ef betur þyrfti að búa að hag þjóðleikhússins, þá ætti það að vera gert af hagnaði af kvikmyndahúsum, sem rekin væru af ríkinu, og ætti að afhenda þjóðleikhúsinu eitt kvikmyndahús til afnota. Úr samkomuhúsaþörfinni úti um landið ætti svo að bæta með því að reisa ríkisrekin kvikmyndahús, sem reist yrðu fyrir það fé, sem fengizt hefur af rekstri þeirra kvikmyndahúsa, sem þegar hafa verið tekin í þjónustu ríkisins. Þetta held ég, að sé bezta lausnin á þessum málum, og ættu menn því að sameinast um till. mína um þjóðnýtingu kvikmyndahúsa. Með því er tryggður hagur þjóðleikhússins og bygging samkomuhúsa víðs vegar um landið. Þá gætu Reykvíkingar haft sinn eigin skemmtanaskatt, hvort sem hann fer til að reisa æskulýðshöll eða verður varið til leiklistar, er fyrst og fremst komi Reykvíkingum að gagni.