20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og getið var um í umr., hef ég ekki lýst afstöðu minni sem einn af nm. allshn. til brtt. á þskj. 244. Ég tel hana að vísu til bóta frá því, sem frv. var upprunalega, en þó tæpast fullnægjandi fyrir þá afstöðu, sem ég hef til þessa máls.

Ég hefði fyrir mitt leyti kosið, að ef þau réttindi væru veitt opinberum embættismönnum að geta farið frá, þegar þeir hefðu náð 65 ára aldri, með fullum rétti til eftirlauna, þá hefði einnig verið til gagnkvæmur réttur ríkisvaldsins eða veitingavaldsins að veita embættismönnum lausn með fullum launum, þegar þeir væru orðnir 65 ára, ef líta mætti svo á, að þeir, sökum þess að farið vær í að draga úr starfsmætti þeirra, væru síður megnugir að gegna embætti. Það eru sem sé tvær hliðar á þessu máli, sem hafa orsakað, að þessi l. voru upprunalega sett, annars vegar eins konar tryggingarráðstöfun fyrir því, að menn sætu ekki í embættum og stöðum, sem sökum ellilasleika væru orðnir á þann veg, að þeir gætu ekki innt af höndum fullkomlega embættisstörf sín, en hins vegar að gefa mönnum kost á hvíld eftir vel unnin störf með fullum launaréttindum, og þó ekki sízt með það fyrir augum að gefa ungum starfskröftum tækifæri til þess að komast í embætti og stöður.

Ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn brtt. á þskj. 244, og get því ekki greitt atkv. gegn henni, af því að hún er frekar til bóta, miðað við frv. sjálft, en hefði í raun og veru verið miklu nær því að gera samkomulag út af brtt. á þskj. 243, þar sem gert er ráð fyrir því, að viðmiðunin væri 67 ár, þegar ríkisvaldinu vær í heimilt að veita mönnum lausn með fullum ellilaunum og þegar hlutaðeigandi embættismönnum og starfsmönnum væri veittur réttur til að hverfa frá embætti með fullum eftirlaunum. Það hefur verið tekið fram í ræðum hv. 1. þm., Rang. og hv. 1. þm. A-Húnv., að löggjöfin væri búin að slá föstu 67 ára aldurstakmarki, þegar aðrir þegnar þjóðfélagsins ættu rétt á að fá sín ellilaun. — Ég mun því, þar sem mér skildist, að hv. 1. þm. Rang. mundi taka brtt. á þskj. 243 aftur, taka hana upp, og gæti það verið samkomulag frá minni hálfu um að samþykkja frv. það, sem liggur fyrir.