30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur mælt í mót till. mínum og hv. 2, þm. Reykv. á þskj. 345 með þeim rökum, að þær næðu til lítils hluta úr till. útvegsmanna og væru till. okkar því úr samhengi við megintilgang útvegsmanna. Í þessu sambandi fórust hv. frsm. hins vegar þannig orð um þessi mál, að það var ekki um að villast, að honum var og er alls ekki ljóst, hvað felst í l. um viðskiptaráð og gjaldeyrismeðferð, sem hér eru til umr. Það, sem hann sagði hér um það efni, er algerlega á misskilningi byggt. Það er að vísu rétt, að í till. útvegsmanna er gert ráð fyrir því, að viðskiptaráð hafi eftirleiðis yfirstjórn bæði yfir innflutnings- og útflutningsmálum. Að öðru leyti eru ekki gerðar neinar till. um breyt. á verksviði viðskiptaráðs. Það er langt frá því, að útvegsmenn séu að stinga upp á nokkru nýmæli að hafa rétt til að ráðstafa farmrými í skipum og á þann hátt rétt á því að ráða bæði inn- og útflutningi til landsins með tilliti til markaðsmöguleika. Þetta er allt ákveðið með l. um viðskiptaráð, og útvegsmenn taka þetta orðrétt upp og gera enga breyt. þar á, því að í l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð segir meðal annars, að nýbyggingarráð og viðskiptaráð skuli sameiginlega útbúa fyrir ár hvert heildaráætlun um útflutning og innflutning þess árs, magn og verðmæti, svo og um, til hvaða landa útflutningurinn fari og frá hvaða löndum innflutningurinn komi. Skal áætlun þessi miðast við það að hagnýta sem bezt markaðsmöguleika og fullnægja sem hagkvæmast innflutningsþörf landsmanna. Þetta er nú þegar eitt af verkefnum viðskiptaráðs, og um þetta eru ekki gerðar neinar brtt. Og þetta er nákvæmlega í samræmi við það, sem nú er um farmrými og vörusendingar til landsins. Þær breyt., sem lagt er til að gerðar verði, eru í fyrsta lagi að breyta skipun ráðsins, í öðru lagi um forgangsrétt til handa innkaupa- og sölufélögum útvegsmanna, eins og 2. brtt. okkar fer fram á, í þriðja lagi að skylda bankana til þess að kaupa allan gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir og í fjórða lagi að þetta ráð skuli jafnframt hafa yfirstjórn útflutningsmálanna. Því er bætt við, en það var það, sem ég sá ekki ástæðu til þess að taka upp. Við vitum, að nú hefur sérstök n. með þessi mál að gera, sem er samningan. utanríkisviðskipta, og það getur leikið nokkur vafi á því, hvort rétt er, að þetta ráð fari sömuleiðis með sölumál framleiðslunnar, og því þótti mér ekki rétt að svo komnu máli að taka upp þessa breyt. Það er sú eina af brtt., sem bárust frá útvegsmönnum, sem ekki er tekin upp hér. Það er að vísu hægt að segja sem svo, að í þeirri till. útvegsmanna, um það að viðskiptaráð verði skipað 7 mönnum í stað 5, eins og nú er, og þeir verði valdir af þeim aðilum, sem nefndir eru í brtt., að sú breyt. sé þannig hugsuð af hálfu útvegsmanna, að þeir hafi viljað fá hana vegna þess, að þeir ætluðu þessu ráði að hafa með fjárveitingar útvegsins að gera. En ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að óskir þeirra eru ekki sprottnar af þessu, og skal ég færa því nokkuð til sönnunar.

Útvegsmenn hafa undanfarið hvað eftir annað farið fram á það við viðskmrh., að hann veitti þeim fulltrúa í ráðinu, sem starfað hefur undanfarið samkv. l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð eins og þau l. eru nú. Og í blaði, sem frystihúsaeigendur gefa út, var tilkynnt fyrir rúmum mánuði síðan, að ráðh. hefði fallizt á þetta. Reyndar var kvartað undan því síðar, að þetta hefði ekki verið framkvæmt. Þeir hafa sí og æ óskað eftir að fá mann í viðskiptaráð, og þeir eru ekki litlir aðilar, sem hafa þar beinna hagsmuna að gæta. Þess vegna er það á misskilningi byggt að halda því fram, að með þessari breyt. á skipun ráðsins, eins og hv. form. fjhn. sagði hér, þá kasti ríkisstj. frá sér öllu valdi yfir þessum þýðingarmiklu málum, í stað þess, að hún hefði áður haft þessi völd. Áður hefur þetta verið þannig, að viðskiptaráð hefur verið skipað 5 mönnum, en nú er ætlazt til þess, að það sé skipað 7 mönnum, að vísu eftir tilnefningu stjórna fjölmennra samtaka. En viðskmrh. mundi hafa vald yfir starfsemi ráðsins og geta sett því reglur. Því má líka segja, að eins og fyrirkomulag málanna er nú, að ríkisstj. hafi kastað frá sér valdi í þessum efnum í hendur þeirra 5 manna, sem nú eru í viðskiptaráði. En ég hygg, að þeim mönnum þyki þeir ekki hafa haft öll völd þar. Og ef hér hefðu verið sett óeðlilega mikil völd í hendur þeirra manna, þá álít ég, að það væri eðlilegra, að það ráð væri skipað eftir tilnefningu þeirra aðila, sem um ræðir í brtt., heldur en það væri skipað mönnum, sem einn einstakur ráðh. tilnefndi í slíkt ráð eftir eigin geðþótta.

En það er svo, eins og ég gat um áðan, þegar ég talaði um till. í upphafi, að þessar brtt., sem hér eru fluttar, eru tiltölulega mjög einfaldar og ættu ekki að þurfa að tefja afgreiðslu málsins mikið. Og þær aths., sem fram hafa komið gegn þeim, finnst mér vera þess eðlis, að þær standist ekki, þegar þær eru athugaðar betur. Það er sanngirniskrafa, að þessar brtt. verði að l., því að reynslan er sú, að þrátt fyrir það að lofað hafi verið að taka þessi l. til athugunar og á þessum l. skuli gerðar breyt., og einmitt að nokkru leyti þær breyt., sem hér er farið fram á, hefur það allt saman brugðizt. Þess vegna óttast ég, að enn geti svo farið og framlenging á þessum l., eins og þau eru, geti orðið til þess, að það dragist nokkuð lengi, að þau verði tekin til athugunar, og þess vegna fannst mér sjálfsagt að bera þessar brtt. fram nú. Ef svo fer, eins og hér hefur verið haldið fram, að þessi l. verði tekin til endurskoðunar og lagfæringar innan tveggja mánaða, þá sakar ekki, að þessar breyt. verði gerðar til þess tíma, þangað til breyt. á þessum l. kemur. Hér er um að ræða, hvort menn geta fallizt á, að þeir aðilar fái að hafa áhrif á störf viðskiptaráðs, sem hér er lagt til, þ. e. hvort framleiðendur eigi að fá rétt til þess að hafa forgang að innflutningi þeirra vara, sem þeir þurfa að nota sjálfir, eða hvort úthlutunin verður látin vera í sama horfi og nú er, og eins um það, hvort þær stofnanir og einstaklingar, sem nú hafa forgangsrétt til þess að kaupa gjaldeyri, verði skyldir til að kaupa allan þann gjaldeyri, sem fæst fyrir þær útfluttar afurðir sem útflutningsyfirvöldin hafa leyft útflutning á.

Ég skal svo ekki tefja þessa umr. frekar. Ég held, að þetta liggi ljóst fyrir og sé ekki þörf á því að þræta um þetta mál meira en ger t hefur verið.