30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get búizt við, að það sé svo um fleiri hér í þessari hv. þd. en mig, að þeim þyki átakanlegt að hlusta á þær harmatölur, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur verið að flytja hér í ræðum sínum yfir því ástandi, sem hér hefur verið í landi síðustu tvö árin og hans flokkur hefur átt sinn þátt í og stutt. Ég get mjög vel fundið til með þessum hv. þm. í þessu efni, af því að ég finn það svo mæta vel, að stjórn hans hefur staðið sig ákaflega illa í viðskiptamálum og mörgum fleiri málum.

Nú, jæja — það var þó einn geisli í þessu um stund hjá hv. 2. þm. Reykv. Honum hafði einu sinni tekizt að fá ofurlitla breyt. á þeim l., sem hér er um að ræða, nefnilega koma inn ákvæði um, að það ætti að gera heildaráætlun fyrir eitt ár í senn um innflutning til landsins af nýbyggingarráði, og þetta var gott og blessað. En þeir bara sneru á hann aftur, þessir samstarfsmenn hans, sem réðu þessum málum. Þeir létu aldrei framkvæma það ágæta ákvæði í löggjöfinni, og m. a. þess vegna hefur um framkvæmd þessara mála farið verr en skyldi. — En þrátt fyrir það að hv. 2. þm. Reykv. lýsti því alveg réttilega, hvað ríkisstj. hafði staðið sig illa í þessum efnum, talaði sá hv. þm. um hana sem ágæta ríkisstj. í þessari sömu ræðu, svo að hv. þm. virðist ekki leggja svo ákaflega mikið upp úr þessu máli út af fyrir sig. En við skulum nú vona, að það komi sem fyrst ríkisstj., sem verði færari um að framkvæma þessa hluti en sú stjórn, sem verið hefur. Og við skulum vona, að það takist bráðlega að koma fram nauðsynlegum breyt. á l. og bæta þá framkvæmdina einnig, því að það er ekki nóg að hafa lagabókstafinn út af fyrir sig, heldur verður framkvæmd l. einnig að vera í lagi. Um þetta mál hefur hv. 2. þm. Reykv. ásamt öðrum þm. flutt nokkrar till. En ég tel, að þær þurfi, sumar a. m. k., mikillar athugunar við, áður en frá þeim er gengið, og meiri en hægt er að koma fram á þessu kvöldi. En síðasti dagurinn er á morgun, sem þessi l. eru í gildi.

Eitt atriði er þarna í brtt. á þskj. 345 frá hv. 2. þm. Reykv., sem ég tel rétt. Það er till. í b-lið, um, að sölu- og innkaupafélög framleiðenda skuli að öðru jöfnu hafa forgangsrétt til gjaldeyris vegna kaupa á vör um þeim og tækjum, sem nauðsynleg eru vegna framleiðslunnar. En þennan lið, eins og hann er þarna orðaður, hygg ég, að megi skilja á fleiri en einn veg um það, hvernig þessu skuli haga. En annað er sjálfsagt, sem er það, að það verður að setja í l. hliðstætt ákvæði um það, að félagssamtök neytenda og samvinnufélög njóti betri kjara í þessum efnum en verið hefur að undanförnu. Það er jafnsjálfsagt og nauðsynlegt. Og ég fyrir mitt leyti hefði talið nauðsynlegt, að þetta hvort tveggja hefði verið látið fylgjast að í endurskoðun löggjafarinnar og margt fleira. En vegna þess að ég tel ekki fært að bera fram brtt. við þetta frv. á þeim skamma tíma, sem fyrir hendi er til afgreiðslu þessa máls, þó að ég hefði annars viljað gera það, ef öðruvísi hefði staðið á, þá álít ég æskilegast, að hv. flm. þessara till. hefðu viljað taka þær aftur nú. En svo vildi ég gjarnan strax eftir helgina ræða við hv. 2. þm. Reykv. um frv. um nýja löggjöf um þessi efni, þar sem m. a. væri tekið til athugunar þetta atriði um að gera rétt framleiðenda meiri í þessum atriðum, sem hér hafa rædd verið, og veita félögum neytenda, svo sem kaupfélögum og samvinnufélögum meiri rétt en hefur verið, eftir því sem löggjöfin hefur verið framkvæmd undanfarið. Ég vildi gjarnan hafa samvinnu um þetta við hv. 2. þm. Reykv. og aðra, sem vildu vinna að þessum nauðsynlegu breyt. á l. Þetta hefði ég talið æskilegast, en ekki að vera, að gera breyt. á frv. því, sem hér liggur fyrir, heldur aðeins framlengja gildi l. þessara um þennan stutta tíma, og hef ég áður lýst till. minni um að tímabinda gildi l.