28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

66. mál, menntun kennara

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja málið og mun ég ekki verða langorður. Ég vildi aðeins segja örfá orð um 46. gr., um skólanefnd við húsmæðrakennaraskólann. Skólanefndin á að vera skipuð þannig, að Félag húsmæðrakennara tilnefni einn, Kvenfélagasamband Íslands annan, en fræðslumálastjórn þann þriðja, og skal hann vera formaður nefndarinnar. Það er efalaust styrkur fyrir skólann að hafa skólanefnd sem millilið milli skólastjóra og fræðslumálastjórnar, og einnig er það styrkur fyrir skólastjórann að láta skólanefnd bera mál skólans fyrir fræðslumálastjórn. Hv. þm. Barð. sagði, að stjórn húsmæðrakennaraskólans væri andvíg þessu, og það er rétt, en engu að síður er það nauðsynlegt, að skólanefnd sé skipuð við skóla þar, sem fáir fastakennarar starfa, og á það fremur við en þar, sem margir kennarar starfa að skóla. En ég skil hv. þm. Barð. vel, að hann fellir sig illa við, að 12 brtt. hans hverfi allar með tölu, og er það eðlilegt. En sem betur fer er hann lífsreyndur maður og vanur að horfa á eftir brtt. sínum fara í fjöldagröf, og vil ég votta honum samhryggð mína.