22.11.1946
Neðri deild: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og grg. ber með sér, er þetta frv. flutt að beiðni hæstv. samgmrh. Það lá einnig fyrir hér í hv. d. á síðasta þingi, naut þá óskipts stuðnings hv. d. og var afgr. frá henni til hv. Ed., en dagaði þar uppi. Ég fylgdi þá frv. úr hlaði með nokkrum orðum og sé ekki ástæðu til að endurtaka þær orsakir, sem liggja til þess, að frv. þetta er fram komið. — Á sínum tíma árið 1940 var gerð bráðabirgðabreyt. nokkurra laga, m. a. um að fresta framkvæmd Ferðaskrifstofu ríkisins, sem stofnuð var með l. árið 1936. Þótti á stríðsárunum minni ástæða til að viðhalda þessari stofnun, en þó var það ekki vilji hv. Alþ., að stofnunin hyrfi úr sögunni, heldur hvíldi sig um skeið. Strax þegar stríðinu lauk, kom í ljós, að ferðalög mundu aukast innan lands bæði af hálfu innlendra manna og útlendra. Þótti þá vel viðeigandi, að ferðaskrifstofan yrði endurreist. Efni þessa frv. er því það að endurreisa ferðaskrifstofuna, en þó með viðauka við það, sem var áður í l. um Ferðaskrifstofu ríkisins 1936, sem sé þeim, að hún skuli greiða fyrir orlofsferðum innanlands, en eðlilegt er, að þetta var ekki í l. frá 1936, því að þá var sú löggjöf ekki búin að taka gildi, sem síðar var samþ. um orlof. Þrátt fyrir það að frv. dagaði uppi á síðasta þingi í hv. Ed., þótti hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. samgmrh. ástæða til þess, að ferðaskrifstofan starfaði á frjálsan hátt með því móti að greiða fyrir orlofsferðum innanlands og sömuleiðis að greiða fyrir þeim útlendingum, sem til hennar leituðu. S. l. sumar starfaði skrifstofan á þennan veg. Hún undirbjó og skipulagði æði margar orlofsferðir, og hygg ég það mál manna, sem tóku þátt í þessum ferðum, að skrifstofan hafi rækt það starf vel. — Ég vildi því vænta þess, að hv. d. sé nú sama sinnis og komið hefur í ljós áður, en sé ekki ástæðu til að endurtaka þau önnur rök, sem ég á síðasta þingi flutti fyrir því, að hér væri um nytjamál að ræða. Vil ég því fyrir hönd allshn. mæla með þessu máli, um leið og ég vil taka það fram, að einstakir nm. hafa óbundnar hendur um breyt. á frv.