31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

147. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Ég skildi hv. frsm. samgmn. þannig, að þeir, sem flutt hafa frv. í báðum hv. þd. á þessu þingi um breyt. á vegal., sem ýmsir hafa svo aftur borið fram brtt. við, hefðu í samráði við samgmn. eða samgmn. beggja d. tekið aftur frv. sín um breyt. á vegal., þannig að þeir, sem borið hafa fram brtt. við þau frv., verða þá, ef þeir vilja halda sig við þær brtt., að bera þær fram við það frv., sem hér liggur nú fyrir, ef þeir eru ekki ánægðir með þá niðurstöðu, sem fengin er í þessu frv.

Ég álít, að þessu máli hafi verið beint inn á rétta leið, sem í raun og veru hafði verið vísað til hér áður með samþykkt þáltill., að vegamálastjóri undirbúi þetta mál, eins og hann líka hefur nú gert. Og að því er snertir till. í þessu frv. um nýja þjóðvegi, þá skilst mér meira að segja, að samgmn. þingsins hafi selt vegamálastjóra algert sjálfdæmi í þessu, þannig að það séu eingöngu hans till., sem teknar eru upp í þetta frv., sem vitað er um, að ganga allmiklu skemmra en till. einstakra þm., sem fyrir liggja um þessi mál. Ég tek mjög undir það, að það hafi verið alveg rétt, að vegamálastjóra væri falið að undirbúa þetta mál, líka að því leyti að gera till. um upptöku vega í þjóðvegatölu. En það ber hins vegar ekki að líta svo á, að vegamálastjóri, sem að vísu er kunnugur staðháttum á landinu yfirleitt, hafi óvefengjanlega hitt svo naglann á höfuðið í þessu efni, að þar geti engar sanngjarnar breyt. komið til greina, því að það er vitanlega margt, sem kemur til greina og athugunar í sambandi við fyrirgreiðslu á aukningu á akvegakerfinu víðs vegar um landið. Þar koma ýmis sjónarmið til greina, sem vert er að líta á og sem vitað er um, að menn líta nokkuð misjöfnum augum á. Það er t. d. kunnugt, að það er uppi sú stefna hjá ýmsum, að það beri mjög að draga saman byggðina í landinu og láta byggð alveg niður falla á ýmsum svæðum. Aftur eru aðrir, sem líta svo á, að á þessum sömu svæðum séu sums staðar svo mikil og margvísleg gæði og möguleikar til búreksturs og til að hefja þar þjóðnýta starfsemi, að það beri alveg sérstaklega að beina til þess því fjármagni, sem ríkið hefur yfir að ráða, til þess að slík byggð geti haldizt við og gangi ekki allt of mikið saman, vegna þess að fremur sé æskilegt, að sú byggð gæti nokkuð færzt út frá því, sem nú er. Ég skal ekkert segja um afstöðu vegamálastjóra til þessara tvenns konar sjónarmiða út af fyrir sig. En ég sé þó, viðkomandi sumum till., sem hér liggja fyrir — og hef ég þar t. d. í huga eina till. um vegarlagningu viðkomandi mínu kjördæmi —, að í þessu frv. gætir mjög þeirrar skoðunar, að ekki beri sérstaklega að leggja áherzlu á að greiða fyrir því, að byggð haldist við á slíkum svæðum, sem ég nefndi, er hafa ekki nógu góðar samgöngur við aðra landshluta, en hafa marga landkosti og atvinnumöguleika í sér fólgna, þar sem bútaðar eru í sundur algerlega þær vegatill., sem bornar voru fram um þetta efni, og lagt er hér til í frv. að taka upp í þjóðvegatölu hluta viss vegar, þann hlutann, sem liggur miðsvæðis í héraði, en klippa af þann hlutann, sem, ef gerður væri að góðum vegi, felur í sér þá þýðingu, að byggð á stóru svæði geti haldizt við, sem annars er hætt við, að mundi leggjast í eyði. Ég er ekki nógu kunnugur til að geta dæmt um, hvort þetta sjónarmið, sem þarna kemur fram, markar í heild till. vegamálastjóra. En ég nefni þetta til dæmis til að sýna, að það getur kannske átt nokkurn rétt á sér, að hæstv. Alþ. bindi sig ekki um of við till. vegamálastjóra eingöngu. En þó að ég nefni þetta, rýrir það alls ekki réttmæti þess, að það sé eðlilegt, að vegamálastjóri leggi fram till. í þessu máli. Hann hefur lagt fram margar skynsamlegar till. um breyt. á vegal. í ýmsum atriðum.

Hv. frsm. þessa máls gat þess, að eins frv. væri enn von frá vegamálastjóra, um breyt. á l. um sýsluvegasjóði, og sagði hv. frsm., að vegamálastjóri mundi leggja þar til sérstaklega eina breyt. á þeim l., sem er í því fólgin að hækka úr 10‰ upp í 12‰ það, sem framlag í héruðum er miðað við. Mér skilst, að þó að þetta sé gert, þá muni hallast nokkuð á um þær rýmkanir, sem vegamálastjóri hefur gert till. um og mikils verðar eru fyrir þær sýslur, sem ekki hafa tekið enn upp sýsluvegasjóðsfyrirkomulagið. Eru till. vegamálastjóra gagnvart þessum sýslum í því fólgnar, að framlag ríkissjóðs til akfærra vega skuli vera helmingur kostnaðar af viðhaldi sýsluvega, en allt að 3/5 hlutum kostnaðar nýbygginga þessara vega. Þetta gildir um sýslur, sem ekki hafa sýsluvegasjóði hjá sér En gagnvart þeim sýslum, sem hafa sýsluvegasjóði hjá sér, leggur vegamálastjóri ekki neitt til í þessu frv. En viðkomandi því frv., sem boðað hefur nú verið um breyt. á l. um sýsluvegasjóði, vildi ég benda hv. samgmn. á, að ef samræmi ætti að vera í ákvæðum þeirra l. um sýsluvegasjóði og þess hins vegar, sem vegamálastjóri leggur hér til, þá ætti á hæstu stigunum, sem framlag sýslnanna næmi — frá 8‰ upp í 12‰ — framlagið úr ríkissjóði að vera 3/5 kostnaðar við nýbyggingar og viðhald sýsluvega í stað 2/3 kostnaðar, eins og nú er.

Vil ég skjóta því til hv. samgmn., að hún athugi þetta, áður en hún flytur þetta frv. um breyt. á l. um sýsluvegasjóði hér á hæstv. Alþ., til þess að nokkurt samræmi verði á milli þeirra fyrirgreiðslna, sem þau sýslufélög fá, sem ekki hafa sýsluvegi hjá sér, og hinna, sem hafa komið á þessum sjóðum hjá sér. Þetta er aðeins bending til hv. n. um, að hún vildi taka þetta til athugunar, áður en hún flytur frv. um þetta efni. En það er nauðsynlegt, að samhliða því, sem breyt. á vegal. og brúal. eru afgr. hér á hæstv. Alþ., að þá sé einnig gerð breyt. á l. um sýsluvegasjóði.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Þetta frv. kemur til athugunar við síðari umræður þessa máls, og má þá athuga það að fá fram leiðréttingar á því, sem hv. þm. óska og telja sanngjarnt í sambandi við þær upprunalegu till., sem þeir hafa borið fram um málið.

Út af því, sem fram kom hjá hv. form. samvinnun. samgöngumála, vil ég gera og skal koma á framfæri við n. aths. um einn lið í 2. gr. frv., sem er 7. tölul. undir B-lið, sem þarf að orða dálítið skýrar en hér er gert. Þar þarf að gera aðeins orðabreyt. til frekari skýringar á því, sem þar er um að ræða.