25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

147. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, þegar hann vildi benda á það, að atkvgr. í gær um fjárl. og fjárveitinguna, sem þar er talin til Hvalfjarðarferju, sýndi, hvað þingið vildi í þessu efni.

Því var haldið þar fram af hv. þm. Barð., að þessi fjárveiting væri alls ekki ætluð til ferjunnar, heldur til Akranesvegar, og margir þm. hafa trúað því, að það, sem á að vinna í sumar fyrir þessa fjárveitingu, sé á Akrafjallsveginum. Það er hins vegar ekki rétt, að það þurfi að breyta öðrum leiðum, þó að þessi liður félli niður, því að 10. liður B. hljóðar svo: „Af Akranesvegi hjá Litlu-Fellsöxl, fyrir Akrafjall, hjá Klafastöðum og Innra-Hólmi á þjóðveginn ofan við Akraneskaupstað.“ Það mætti þess vegna segja, að fjárveitingin, sem veitt var í gær, eigi að vera í Hvalfjarðarveg, eftir að komið er fram hjá Klofastöðum.

Hins vegar er þetta aukaatriði. Aðalatriðið er það, að menn geri sér ljóst, að með þessu er verið að binda Alþ. um kostnað, sem nemur ca. 2 millj. kr., og slá því föstu, að þarna eigi framtíðarleiðin því að liggja, en það er rangt. Við eigum ekki að slá því föstu. Við eigum að fá skip, sem eru góðar ferjur, og ég segi, að með þeim hafnarskilyrðum, sem nú eru komin á Akranesi, þá sé hægt að lenda þar stærri skipum en Laxfoss er nú, t. d. ferju eins og er á Stórabelti, í því veðri, sem hægt er að ferja yfir Hvalfjörð. Það er alltaf hægt að lenda á Akranesi, þegar fært er yfir Hvalfjörð, og það er framtíðin, en ekki að henda 2 millj. í ferju, sem eftir 2–3 ár er svo ófullnægjandi. Þess vegna á þessi vegur að falla úr frv., og mun ég koma með brtt. um það við 3. umr.