27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég get verið hv. þm. Barð. sammála um það, að skattaálögur eru háar, og sjálfsagt meðfram af því, hve sköttum er hlífðarlaust beitt, grípa menn til óyndisúrræða. Viðvíkjandi því, að ég gefi yfirlýsingu um það, sem verði gert eða ekki gert í þessum efnum, vil ég taka fram, að þetta frv. er lagt fram af fyrrv. ríkisstj., og mér er tjáð í ráðuneytinu, að skattayfirvöldin hafi lagt sínar línur þannig, að reiknað væri með samþykkt þessa frv. Af þeirri ástæðu er þegar nauðsynlegt, að það nái fram að ganga, og um hitt, að ríkið megi ekki missa þessar tekjur, er hv. form. fjvn. mér eflaust sammála. Nú er þetta frv. hér til 3. umr. Hver úrræði kunna að verða til tekjuöflunar yfirleitt, um það vil ég ekkert fullyrða að svo komnu máli. En hver sem þau kunna að verða, er í sjálfu sér hættulaust að láta málið ganga til Nd. Þar þarf það að fara í gegnum þrjár umr., áður en það verður að l., og ég vildi mælast til þess, að hv. þm. Barð. félli frá kröfu sinni um að stöðva málið, þótt ég gefi ekki yfirlýsingu um stefnuna almennt. En að því slepptu, vildi ég fara fram á það við hv. dm., að þeir létu málið nú ganga til Nd., því að það er trúa mín, að bæði af skattteknískum ástæðum og vegna þarfar ríkissjóðs sé full þörf á, að málið verði samþ. í þessu formi.