16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég lét þess getið við 2. umr. þessa frv., að þótt ég eigi sæti í menntmn., sem hefur haft frv. þetta til athugunar, þá skoða ég mig óbundinn um alla afstöðu gagnvart því. Læt ég þessa getið að gefnu tilefni, þ. e. út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. (BSt). Ég var því meðmæltur, að n. í heild flytti frv. án tillits til þess, hvort hún væri því samþykk eða ekki, því að hér er aðeins um flutning frv. að ræða að beiðni hæstv. kirkjumrh., því að ég álít það ógreiðasemi af þn. við hlutaðeigandi ráðh., sem biður hana um að flytja frv., að neita slíku án tillits til þess, hvaða afstöðu n. hefði til frv., þegar til umr. kemur. Ég vil ekki ítreka það hér, sem ég hef áður getið um, hvað ég teldi frv. til foráttu, en vil þó aðeins endurtaka það, að frá mínu sjónarmiði þykir mér alltof lauslega og flausturslega á stóru máli tekið, þar sem þetta frv. er, þ. e. kirkjuskipunarmál, búseta prestanna, launakjör þeirra, málefni kirkjunnar, breyttar kringumstæður og yfirleitt allt, sem lítur að því að hlúa að þessari miklu og merkilegu stofnun, sem heitir íslenzk kirkja. Mér finnst þurfa til þessa stóran og vel undirbúinn lagabálk í staðinn fyrir að taka þetta hér út úr jafneinhliða og hér er gert. Ég er alls ekki að neita því, að ég er því sammála, að það verður að firra þeim vandræðum, að þjónandi embættismenn ríkisins séu í húsnæðishraki og þ. á m. auðvitað prestar. En hvernig á að fullnægja þessu svo að vel sé, tel ég undirbúningslaust mál af því, hvað málefni prestanna, varðandi skipun prestakalla og aðsetur presta, eru öll yfirleitt svo laus í reipunum á yfirstandandi misserum. Prestarnir eru hröðum skrefum að hverfa frá bújörðum sínum, þar sem hafa verið prestssetur um margar aldir, og til annarra bústaða, sem sagt hverfa frá því að geta verið bændur, og kjósa fremur að flytjast þangað, sem kaupstaðir eru að myndast, þótt til séu að vísu undantekningar, því að til eru svo rótföst prestssetur úti um land, þaðan sem prestum dettur ekki í hug að flytja frá, og söfnuðurnir telja sjálfsagt að þar verði prestssetur áfram, og gott og vel, þar sem svo stendur á. Síðan er hins vegar fjöldi annarra prestssetra, þar sem öðruvísi er ástatt um, þar sem prestarnir eru annaðhvort fluttir í burt eða eru í þann veginn að gera það.

Ég veit ekki hvort segja má það með sanni, en ég hef heyrt það utan að mér, að til séu prestssetur, sem séu alveg að falli komin, en gripahús þar þegar fallin, og ef byggja þarf bæði prestssetur að nýju og gripahús, þá þarf vitanlega til þess mikil fjárráð. En ef þannig er ástatt um einhver prestssetur og prestar þar væru alveg í þann veginn að fara og ekki annað fyrirsjáanlegt en þeir flyttu í burt, þá væri í rauninni mjög vafasamt, hvort verið væri að byggja yfir nokkurn prest eða ekki, og yrði byggingin ef til vill einhverjum öðrum til góðs eða á þann hátt, sem ekki samsvarar tilgangi l. — Ekki er langt síðan deilt var hér um skiptingu prestakalla á Íslandi, og voru bornar fram till. um þessi efni, sem ýmist voru samþ. eða meiri hl. hv. Alþ. snérist gegn, en þetta þyrfti enn að breytast að nokkru leyti, og er það vegna þess, hversu rás viðburðanna er hröð til breytinga, og getur hún hæglega verkað á skiptingu prestakallanna. Gera t. d. breyttar samgöngur og breyting á farartækjum einmitt nýja skipan prestakalla nauðsynlega og eðlilega, þ. e., hvort eigi að stækka þau eða breyta frá því, sem nú er, og getur það hæglega verkað á, hvar embættismannabústaður eigi helzt að vera?

Ég vil ekki þurfa að taka það fram eða endurtaka, að því fer svo fjarri, að það sé af óvild í garð þess frv., sem hér liggur fyrir, að. ég hef hikað við að greiða því atkv. mitt, heldur er það einungis af því, að mér finnst vanta heilsteyptan grundvöll, þannig að hægt væri til frambúðar að ganga frá löggjöf, sem lítur að þessum málum. Hins vegar finnst mér, — þar sem ekki er um að villast, hvar prestar eigi að hafa aðsetur, eins og t. d. í stórkaupstöðunum og á einstöku stöðum úti um landsbyggðina, — að meðan verið væri að koma á heildarlagasetningu, sem hagræddi þessu öllu saman í samráði við forustumenn kirkjunnar, herra biskupinn, prestastéttina og söfnuðina til hins ýtrasta, því að þeirra leiðbeininga þarf við, að hægt væri — til þess að gera kirkjunnar mönnum ekki erfiðara undir höfði en nauðsyn krefur — að tína út úr þá staði, þar sem nauðsynin er brýnust og veita fé til þeirra af fjárl. fyrst um sinn, þótt heildarlagasetning verði látin bíða. Af þessum ástæðum er það, að ég hef hálfhallast að því að greiða rökst. dagskránni atkv. mitt.

Að lokum vil ég segja það, að það er ekki minn hugur, — og ég geri ráð fyrir ekki heldur margra annarra hv. alþm., að samræmd löggjöf um embættismannabústaði verði til þess að rýra hlut prestanna eða eyða þeim fríðindum, sem þeir hafa notið.