10.04.1947
Efri deild: 111. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

220. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Pétur Magnússon:

Herra forseti. — Fjhn. hefur notað fundarhléð til þess að athuga frv. og bera það saman við gildandi lög. Fjhnm. eru ekki sammála um þetta frv., og skiptist n. í tvennt, meiri og minni hluta. Í meiri hlutanum eru 4 nm., en aðeins 1 nm. (BrB) er á móti því, að umr. fari nú fram, og mun hann að líkindum gera grein fyrir áliti sínu í þeim efnum hér á eftir. Þess má geta, að afgreiðslu máls þessa er mjög flýtt, og hefur ekki unnizt tími til að skila prentuðu nál. Ég þarf ekki að fjölyrða um efni þessa frv. nú. Það er gert í grg., og hæstv. fjmrh. gerði nokkra grein fyrir því við 1. umr. málsins. Eins og hv. þm. er ljóst við athugun á frv., þá eru tvær efnisbreyt. í frv., sem sagt að einn vöruflokkur, lakkrísvörur, er færður í sama flokk og marzipan, brjóstsykur, karamellur o.fl. sælgæti. Áður var tollurinn á lakkrísvörum 70 aurar á hvert kg., en ætlazt er til, að hann verði 2,10 kr. eins og af öðrum sælgætisvörum. Að öðru leyti er gert ráð fyrir í frv., að gjaldið af innlendum tollvörutegundum skuli samkv. l. um gjald af innlendum tollvörutegundum hækkað um 100% frá því, sem nú er. En nú er þess að gæta, að búið var að hækka þetta um 50 % með l. frá 1946, þannig að gjaldið er þrefalt miðað við það, sem var í l. frá 1939. Ég veit ekki, hvort mönnum er ljóst, hvaða vörutegundir er hér um að ræða, og af því að það tekur skamman tíma, ætla ég að telja þær lauslega upp.

1. kafli l. fjallar um, eins og fyrr getur, marzipan, brjóstsykur, tyggigúmmí, karamellur o. fl. sætindi.

2. kafli er um kakaóvörur ýmiss konar, svo sem suðusúkkulaði. átsúkkulaði, hreint súkkulaði o.fl. 3. kafli fjallar um kaffibæti og kaffilíki alls konar, en á því var 60% tollur. Kaffibætir er í frv. undanþeginn hækkuninni.

4. kafli er um drykkjarvörur og ýmislega vökva, svo sem öl og gosdrykki alls konar, litað sykurvatn o.fl.

5. kafli fjallar um tóbaksvörur.

Hér hef ég talið upp þær vörur, sem hækka á tollinn á samkv. frv., og er sú hækkun, eins og ég drap á hér áðan, í raun og veru þreföld miðað við þetta gjald 1939, en sú hækkun svarar alveg til hækkunar vísitölunnar. Það er því vafasamt, hvort þetta getur kallazt hækkun.

Menn verða að gera sér ljóst, að tollar, sem miðaðir eru við þunga, hafa yfirleitt lækkað síðan fyrir stríð, sem svarar til verðfalls peninganna síðan. Þess vegna er hér um að ræða að færa tollinn nokkuð í samræmi við það, sem áður var. Meiri hl. n. er sem sagt þeirrar skoðunar, að eins og á stendur og með tilliti til þeirra þarfa, sem ríkissjóður hefur fyrir auknar tekjur, þá sé þessi breyting á löggjöfinni í alla staði eðlileg, og vill n. því mæla með því, að frv. nái fram að ganga. Þess má geta, að n. telur því meiri ástæðu til að færa tollana á þessum vörum til samræmis við það, sem áður var, þar sem yfirleitt er um vörur að ræða, sem ekki er hægt að segja, að séu nauðsynjavörur. Ég hygg, a8 allar þær vörur, sem falla undir þessa löggjöf, séu þess eðlis, að mönnum sé nokkurn veginn í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja nota þær eður eigi. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál frekar, en fyrir hönd n. vil ég mæla með því, að frv. nái fram að ganga.