03.02.1947
Neðri deild: 65. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

152. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef lesið þetta frv. og þá grg., er því fylgir. Í grg. segir, að Samábyrgðin sé aðallega endurtryggingarstofnun fyrir fiskiskip landsmanna og mun það rétt vera, en eftir því sem fram hefur komið síðar, skilst mér, að hún sé einnig orðin lánsstofnun, þó að henni hafi ekki verið ætlað það hlutverk. Frá því er skýrt, að um það leyti, sem frv. var flutt, hafi Samábyrgðin átt útistandandi 3½ millj. kr., og þetta, sem farið er fram á í frv., að ríkið leggi fram 2½ millj. kr., er rökstutt með því, að Samábyrgðin þurfi aukið starfsfé vegna lána. Starfsfé Samábyrgðarinnar er aðeins 1¼ millj., og ef á að veita félögunum greiðslufrest, þá þarf að fá féð aukið eða taka lán. Ég held, að bezta lausnin sé, að Samábyrgðin starfi áfram sem tryggingarstofnun, en ekki sem lánsstofnun. Það er eðlilegt, að sjávarútvegurinn fái lán hjá bönkunum og fiskveiðasjóði, en ekki hjá Samábyrgðinni. Hitt dæmi ég ekki, hvort þörf sé á starfsfjáraukningu, en líklegt er, að hægt sé að komast hjá henni. Ég vildi mælast til, að sjútvn. tæki þetta betur til athugunar, því að ríkissjóður hefur ekki svo mikið fé laust, að ekki er ástæða til að verja fénu þannig, ef það er ekki nauðsynlegt.