05.05.1947
Sameinað þing: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil aðeins mótmæla því, að samningurinn við Bandaríkin hafi verið gerður frjálst og óþvingað af íslenzkum valdhöfum. Hann var gerður undir þeirri þvingun, að það lá fyrir, eftir því sem sá meiri hluti, sem samþykkti hann á þingi, gerði grein fyrir, að ameríski herinn færi ekki burt af Íslandi, nema því aðeins að þessi samningur væri gerður. Og það voru einmitt rökin, sem sá meiri hl. hafði fyrir því að gera þennan samning. Hann sagðist ekki geta fengið herinn til að fara burt nema með því móti að gera þennan samning. Þess vegna var samningurinn ekki gerður með frjálsu samkomulagi. Og samningurinn er ekki haldinn, heldur hefur gagnaðili okkar að samningnum brotið, eftir því sem hann hefur séð sér fært, það, sem í samningnum stendur.