23.05.1947
Neðri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég skal gjarnan gefa þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru í þessu máli. Þessu máli var hreyft í einu dagblaðanna í gær, og var ætlunin, að ríkisstj. gæfi um það opinbera tilkynningu, en vegna þess að í gær var fundur hér í þinginu, sem stóð fram á nótt, hefur ekki unnizt tími til þess að koma þessari tilkynningu út.

Nokkru eftir, að ég tók sæti í ríkisstj., var mér tjáð, að fyrir lægi beiðni frá ensku verkfræðingafirma að fá að gera athuganir á Þjórsá, og við nánari athugun fékk ég að vita, að á síðasta sumri kom hingað til lands fulltrúi frá ensku alúmíníumfirma, sem vildi fá að gera athuganir á vatnsmagni Þjórsár. Þá var þetta mál lagt fyrir ríkisstj., og hún taldi ekkert athugavert við það, þó að vatnsmagnið væri athugað, og samkvæmt því mun hafa verið greitt fyrir þessum manni. Hann flaug m. a. yfir vatnasvæðið og gerði einhverjar athuganir úr lofti, en fór síðan aftur til Englands. Það næsta er svo í þessu máli, að það kemur beiðni um, að firmað megi halda þessum athugunum áfram. Sú beiðni var því næst rædd í ríkisstj., og féllst hún á að leyfa áframhaldandi athuganir, en þó án skuldbindingar um nokkur frekari réttindi í framtíðinni. Enn fremur var þannig frá gengið, að ríkisstj. fengi að fylgjast með þessum rannsóknum og niðurstöður þeirra yrðu eign Íslendinga. Tveimur embættismönnum var falið að fylgjast með og semja um, hvernig þessu yrði fyrir komið, en það eru vegamálastjóri og raforkumálastjóri. Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að svara í þessu sambandi, en þó vil ég aðeins geta þess í sambandi við það, að 6. þm. Rvk. taldi þessar rannsóknir heyra undir l. um náttúrurannsóknir, að ríkisstj. leit svo á, að hér væri ekki um vísindarannsóknir að ræða, heldur væru þetta fyrst og fremst tæknilegar mælingar, þó að ef til vill mætti heimfæra þær undir umrædd lög.