23.05.1947
Neðri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. og tel hann hafa gefið greinargóðar upplýsingar, en það er þó eitt atriði, sem ég get ekki fallizt á, og það er, að þetta eigi ekki skylt við náttúrurannsóknir. Það vita allir þm., að þessi umræddu lög voru einmitt sett vegna þess, að nokkur brögð voru að því, að erlendir aðilar vildu rannsaka auðlindir landsins, en til þess að varna frekari íhlutun voru þessi ákvæði sett í l. um náttúrurannsóknir. Nú vita allir, að eftirsóknarverðustu gæði þessa lands er raforkan, og þegar erlendir aðilar fara að sækjast eftir að rannsaka hana, þá er hætt við, að fleira búi undir. Að vísu er bót í máli, að þessum erlendu mönnum er skylt að hafa samstarf við íslenzka aðila. En þrátt fyrir það, tel ég, að hér sé farið inn á mjög varhugaverða braut og ekki sízt, þegar jafnvel getur leikið vafi á um eignarrétt okkar á vatnsorkunni í Þjórsá. Mér er ekki kunnugt um, að eignarréttur Títan-félagsins svo nefnda, sem einu sinni keypti vatnsréttindi í Þjórsá, sé niður fallinn, þó að svo kunni að vera. En ég vil þó benda á það, að ekki er allsendis óhugsandi, að á bak við þessar rannsóknir sé á einhvern hátt gamla Títan og að þeir gerðu sér hugmyndir um, að þeir ættu þarna einhvern rétt. Ríkisstj. er skylt að vera á verði, og sem betur fer eigum við marga og góða verkfræðinga, sem geta framkvæmt mælingar og rannsóknir, og að minnsta kosti undir þeirra stjórn eiga allar rannsóknir á auðlindum okkar að fara fram.