13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

209. mál, Egilsstaðakauptún í Suður - Múlasýslu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. lýsti yfir því, að hann sjái ekki ástæðu til að taka málið til frekari athugunar. Hann hefur haldið því fram, að öllu sé lokið og viðurkennt, að n. veit ekki, hvað kostnaðurinn er mikill. Ég hefði gjarnan óskað eftir að fá upplýsingar um það, áður en gengið er til atkv., hvað kostnaðurinn væri mikill, því það virðist rekast á hjá hv. frsm. og það, sem stendur í grg. Það segir í grg., að eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna hafi farið austur í júnímánuði og athugað allt, er að málinu lyti. Ég vil þá segja það, ef allt það, sem tilgreint er í 6. gr. og í 8. gr. frv., hefur verið gert, eftir að hann skrifaði grg. sína, í júlímánuði, þá getur ekki verið hér um stórfelld mannvirki að ræða, ef lokið hefur verið við að framkvæma þau. Ég vil nú ekki deila mikið um þetta. En í frv. nú, eins og nál. á þskj. 808 ber með sér, er ekki takmarkað, hvað hægt er að setja í þetta. Mér þætti vænt um, ef hv. frsm. tæki til greina óskir mínar um að fresta málinu og leggja fyrir hv. d. þær upplýsingar, sem ég bað um.

Ef hins vegar málið fer til 3. umr., þá mun ég flytja mínar brtt., — því það getur ekki verið vilji allrar n. að hafa þetta ótakmarkað. Það hlýtur þá að vera, að einhverjir aðrir hagsmunir séu á bak við en þingmannsskyldan. Þá þykir mér einkennilegt, ef gerðar eru stórframkvæmdir, áður en byrjað er á frumatriði málsins, en það er að tryggja eignarumráð yfir lóðunum, því vitanlega hækka þær stórfelldlega. Mér þykir það einkennilegt. Ég segi fyrir mína parta, að ég vildi fá upplýsingar um þetta, áður en málið heldur lengra áfram. Ég vænti því, að hv. frsm. falli frá því, að umr. verði slitið í dag, en fresta málinu, til að reyna að fá bætt úr ágöllum frv., sérstaklega í 8. gr., þar sem ég tel ekki fjarri lagi, að ráðh. hafi annars leyfi til að afhenda þessi fyrirtæki gegn litlu gjaldi.