20.03.1947
Efri deild: 98. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

10. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Ég vil ekki eyða tíma í að ræða þetta mál eða söguna um afgreiðslu þess, en það er aðeins eitt í ræðu hæstv. utanrrh., sem ég vildi minnast á. Hann spurði, hvort n. hefði ekki klofnað, og sá ekki ástæðu til að halda fund um málið. Þegar meiri hl. vildi bíða eftir afgreiðslu mþn., gerði minni hl. ráð fyrir, að það væri sama og að salta málið, og kom í ljós, að drátturinn varð lengri en meiri hl. hafði gert ráð fyrir. En ef bíða á eftir áliti mþn., þá er augljóst, að svo mikill dráttur verður á því, að málið fær ekki afgreiðslu á þessu þingi. Hvort n. sé að klofna, getur verið misskilningur hjá mér, og afgreiðsla þessa máls var ekki tekin upp að nýju eftir að nýr maður kom í n. En ég áleit, að hann hefði sömu skoðun í málinu og sá, sem fór, þótt ekki lægi fyrir nein yfirlýsing frá honum. Biðin eftir afgreiðslu málsins í mþn. var svo löng, að minni hl. taldi ekki bíðandi eftir því, og virðist hv. þm. Str. gera sér vonir um, að koma hins nýja manns geti skapað meiri hl. um það álit.