29.11.1946
Neðri deild: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

92. mál, tannlækningar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. þarf ekki langra skýringa við. Í l. frá 1932 segir, að dómsmrh. sé heimilt með samþykki landlæknis að veita mönnum, er lokið hafa tannsmíðanámi, leyfi til að setja gervitennur í menn og tanngarða í menn í samráði við héraðslækni í þeim héruðum, sem eru tannlæknalaus. En ef nú sezt að tannlæknir í héraðinu, verða þeir réttlausir. Ég veit ekki, hversu æskilegt er, að þessir menn starfi án handleiðslu sérfræðinga, en það er óneitanlega hart að gengið að reka þá úr læknislausum héruðum og menn, sem stundað hafa starfið, verði réttlausir, ef tannlæknir kemur. Ég óska, að frv. fari til heilbr.- og félmn., sem leiti álits dómbærra manna, og mun ég taka aths. þeirra til greina, ef til kemur, en mér finnst ósanngjarnt að leyfa mönnum, sem á annað borð eru færir, ekki að stunda þetta starf, þegar enginn tannlæknir er.

Ég hef óskað þess að flytja þetta frv. sem þm. ásamt hv. 5. þm. Reykv., og þó að ég sé heilbrigðismálarh., þá hefur ráðuneyti mitt ekki tekið afstöðu í þessu máli.