05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

92. mál, tannlækningar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. út af orðum hæstv. samgmrh., er hann var að tala um misrétti það, sem nú væri. Ég vil minna á, að tannsmiðir þeir, er eiga hlut að máli, hafa sett sig niður vitandi, hvernig löggjöfin var og þau skilyrði, er þeir áttu við að búa. Þeim kemur því ekkert á óvart. Hafi þeir sett sig niður á fjölmennum stöðum, gátu þeir búizt við, að tannlæknir kæmi von bráðar á þann sama stað. Það stendur því ekki til að gera á hlut eða ganga á rétt nokkurs í minni afstöðu til frv. Ég vil leyfa mér að benda á, að aðaltilgangur löggjafarinnar verður að miða að því, að tannlæknar verði sem víðast. Þó að tannsmiðir séu góðir og nauðsynlegir til að smíða tennur í fólk, þá er aðalatriðið að gera við tennurnar í fólki. En sá réttmæti ótti hefur komið upp, að frv. gæti dregið úr áhuga manna á að læra tannlækningar eða setja sig niður, þar sem verkefni væru takmörkuð, af því að fyrir væri tannsmiður með miklum réttindum. Þetta ber að hafa í huga, og er þetta ekki af meinbægni við neinn, heldur vegna nauðsynjar á fleiri tannlæknum. Það ætla ég að þingmenn verði að hafa í huga, að ekki má draga úr áhuga manna á að læra tannlækningar. Hæstv. samgmrh. sagðist ekki geta sætt sig við till. hv. 7. þm. Reykv. og ekki heldur till. meiri hl. heilbr.og félmn., m. a. vegna þess, að tannsmiðir bæru takmarkað traust til heilbrigðisstj. Ég verð að segja það, að ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur þessi vitneskja, og mér sýnist, að tannsmiðir hafi enga ástæðu til að tortryggja stjórn heilbrigðismálanna og hafi heldur ekkert leyfi til að ganga fyrir fram út frá því, að þetta ákvæði sé þýðingarlaust. Slíku er ekki hægt að slá föstu.

Ef þessar till. yrðu samþykktar, þá hafa tannlæknar vofandi yfir sér, að leyfin verði látin gilda áfram. Það er því aðhald fyrir tannlæknana og vinningur frá því, sem nú er, og ef það yrði samþykkt, þyrftu flm. frv. ekki að kvarta yfir því, að enginn árangur væri af flutningi frv. Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að ræða mín hefði verið loðin og óskýr, og spurði mig, hvort ég áliti, að tannsmiðir hefðu leyfi til að starfa sjálfstætt. Það getur verið, að ég hafi ekki sett nógu skýrt fram álit mitt, en auðvitað hafa tannsmiðir ekki leyfi til að starfa sjálfstætt nema með undanþágum. En það eru þessar undanþágur, sem flm. frv. vilja gera víðtækari. Allir virðast vera sammála um hina almennu verkaskiptingu milli tannlækna og tannsmiða. Spurningin er aðeins, hve langt á að ganga, í því að veita undanþágur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta öllu, nánar, en endurtek það, að ég mæli með till. hv. 7. þm. Reykv. með viðbótartill. frá meiri hl. heilbr.-og félmn., tel þá, að löggjöfin sé betri en áður þótt ekki sé gengið eins langt og flm. vilja, en svo langt er ekki rétt að ganga.