11.04.1947
Neðri deild: 110. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

221. mál, bifreiðaskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég get fúslega viðurkennt. að það er alls ekki óeðlilegur gjaldstofn fyrir ríkissjóð að leggja nokkurn skatt á bifreiðar og það, sem þeim tilheyrir, og að því leyti er allt öðru máli að gegna um þetta frv. en það, sem við ræddum hér sérstaklega s.l. dag og fram á nótt. En ég get ekki látið þetta frv. ganga svo gegnum þessa umr., að ekki sé vakin athygli á, að hér er sérstakt tækifæri til að skattleggja eyðsluna. Beini ég því einkum til hæstv. menntmrh., sem svo mjög undirstrikaði þörfina á að skattleggja eyðsluna. Samkvæmt þessu frv. verða allir bílar að borga sama gjald af hjólbörðum og gúmmislöngum, og samkvæmt þessu frv. verða enn fremur allir fólksbílar, þar með taldir jeppar, að borga sams konar þungaskatt. Hvers vegna á nú að vera að velta allverulegum skatti yfir á rútubifreiðar og aðrar þær bifreiðar, sem notaðar eru í almenningsþágu, og þar með vinna beint að því að hækka dýrtíðina í landinu, en láta allan þann fjölda, sem til er af einkabifreiðum, sitja við sama borð? Ég vil sérstaklega heyra, hvað hæstv. menntmrh. segir um þetta. Hví vill hann ekki skattleggja eyðsluna og hafa skattinn á einkabifreiðum margfaldan á við það, sem lagt er á þá, sem notaðir eru í almenningsþágu? Ég vil líka benda á í þessu sambandi, að þetta kemur verulega niður á stórum hóp bifreiða, sem fluttar eru til landsins og notaðar eru að mestu leyti sem vinnuvélar í þarfir landbúnaðarins, en það eru jeppabifreiðarnar. Hvað segir hæstv. landbrh. um þetta? Er það eðlilegt, að bændur, sem hafa fengið sér jeppa til að draga sláttuvél, herfi eða plóg eða önnur vinnutæki eða flytja nauðsynjavörur úr næsta kaupstað til búa sinna, séu skattlagðir þannig um 300–400 kr.? Er þar veri8 að nýta eðlilegan skattstofn? Er eðlilegt, að bændur sitji þarna við sama borð og þeir, sem eiga bíla án alls þarfa. sem eru að framkvæma virkilega eyðslu með sinni bílanotkun? það er sjálfsagt svo með þetta frv., að hæstv. stjórn getur auðveldlega komið því til n. á þessari nóttu, en ég vænti þess, að í þeirri n. verði þetta mál tekið upp og athugað, hvort ekki eigi að afnema þennan ágalla, að leggja sama skatt á einkabifreiðar og þær, sem notaðar eru í þjónustu landbúnaðarins.

Ég drap á það í dag, að ég hefði fengið upplýsingar um, að Norðmenn hefðu lagt mjög háan skatt á einkabifreiðar, og er þar skatturinn miðaður við aldur bifreiða. Hann er hár fyrstu árin, en fer lækkandi, eftir því sem þær eldast. Ég held, að það væri ráð fyrir hv. n. að kynna sér þessa tilhögun, og ef þeir geta fengið tæmandi upplýsingar, að vita, hvort ekki er rétt að hverfa inn á þessa braut hér.

Ég hef svo ekki lengri umr. um þetta, en vænti, að þetta verði tekið til athugunar í n.