09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. atvmrh., að á síðasta þingi varð ágreiningur um framlög til þessa sjóðs, og var þá af honum borin fram hækkunartill., sem stöðvaði málið, vegna þess að þáverandi landbrh. sá ekki fært, að það yrði hærra en gert var ráð fyrir í frv. En á því sama þingi var afgr. stærsta fjárútlátamálið fyrir landbúnaðinn, frv. um landnám og nýbyggðir í sveitum, og var þá vilji minn og margra hv. þm. að fá það frv. samþ. Á þessu þingi er þetta eina málið, að undanteknum fjárskiptunum, sem nokkru varðar fyrir landbúnaðinn, og miðað við framlög til annarra hluta, þá sýnist það ekki frekt að biðja um hærra framlag til sjóðsins en gert er ráð fyrir í frv. Nú hefur hv. þm. Skagf. sagt mér, að hann hafi ekki átt neinn hlut að samþykkt búnaðarþingsins. Afstaða hæstv. landbrh. er á annan veg. Hann er forseti búnaðarþingsins, sem vildi krefjast þess, að framlagið sé ekki tvöfaldað, heldur fjórfaldað. Nú hef ég ekki þorað að fara hærra en að það sé tvöfaldað, og hefur hæstv. ráðh. það á valdi sínu, hvort málinu er stofnað í hættu vegna þess, og ósamræmi er í því að láta búnaðarþing krefjast, að framlagið sé fjórfaldað, en leggjast á móti því hér, að það sé tvöfaldað. Þetta vildi ég láta koma fram. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um till. Hún er það ljós, að menn ættu að geta gert sér grein fyrir henni án frekari skýringa.