09.05.1947
Neðri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að ræða hér langt mál eða hefja deilur um það, hver afstaða einstakra manna hafi verið, en varðandi það, að atvmrh. ráði ekki afstöðu búnaðarþings, þá er það víst, að hann er þar mikill valdamaður og hefði getað fengið till. um þetta samþ. með öllum greiddum atkv. En því er ekki að leyna, að það er mikið ósamræmi í afstöðu atvmrh. á búnaðarþinginu og afstöðu hans hér nú.

Frsm. sagði, að málið væri í hættu, ef till. mín yrði samþ., það tel ég alls ekki. Annars skera atkv. úr um það. Varðandi tilboð ráðh. að tryggja till. framgang, ef ég sæi um, að Sjálfstfl. fylgdi henni einhuga, get ég ekkert um það sagt og býst við, að um það séu skiptar skoðanir, en nú er komin yfirlýsing frá sósíalistum, að þeir muni fylgja till., svo að það ætti að vera góður styrkur. Ég óska svo, að þetta mál verði látið ganga fljótt, eða þá, að því verði frestað, því að ég þarf að fara frá.