16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

71. mál, ræktunarsjóður Íslands

Pétur Magnússon:

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. landbrh. sagði hér. Hann gerði aths. út af því, sem ég hafði sagt varðandi starfssvið sjóðsins. Hæstv. ráðh. sagði, að ef féð reyndist of lítið, þá væri varhugavert að færa út verksvið sjóðsins, en annars væri þess full þörf að lána til þeirra framkvæmda, sem ætlazt væri til, að ræktunarsjóður lánaði til. Það er síður en svo, að ég sé að véfengja það, að ekki sé full þörf að lána til kaupa á landbúnaðarvélum, til þess að auka bústofninn og til fleiri hluta, sem ætlazt er nú til, að ræktunarsjóður hafi með að gera. Ég hef aðeins nokkrar efasemdir varðandi það, hvort rétt sé að hafa sömu lánsstofnunina, sem láni til þessa alls. Ég álít, að ræktunarsjóður eigi ekki að veita áhættulán. Í þessu sambandi má benda á, að starfssvið sparisjóðsdeildar Búnaðarbankans var hugsuð einmitt með það fyrir augum, að hún veitti lán til líkra, nauðsynlegra framkvæmda og um ræðir í 4. gr. frv. En nú er verið að keppa að því að gera Búnaðarbankann að verzlunarbanka. Það er harla lítið samræmi í því að gera Búnaðarbankann að verzlunarbanka á sama tíma og því er haldið fram, að ekki sé nægilegt fé til að lána til nauðsynja landbúnaðarins. Þetta er líka lítið í samræmi við það, sem maður heyrir um, að verzlunin eigi að dragast saman, en framleiðslan að aukast. Þá hélt hæstv. landbrh. því fram, að frv. á þskj. 105 væri óbreytt, frá því fyrrv. ríkisstj. bar það fram hér í fyrra. Þetta er misskilningur. 9. gr. þess frv. og 8. gr. nú eru að orðalagi mjög ólíkar. Ég hirði ekki um að lesa gr., en þetta getur hver maður séð, sem vill. Þær eru eiginlega ekkert líkar þessar tvær gr. Ég hafði gert fyrirspurn um það, hvernig ræktunarsjóður ætti að útvega lán með svona lágum vöxtum. Hæstv. landbrh. svaraði því til, að nú stæði fyrir dyrum að gera eignakönnun og ríkissjóður fengi þá fé handa á milli, sem mætti verja í þessu skyni. Ef þetta er hugsunin, og hún er alls ekki óskynsamleg, þá sé ég ekki, hvers vegna verið er að fara í kringum þetta. Því er ekki sagt, að ríkissjóður eigi að lána þetta? Hæstv. ráðh. minntist á það aftur, að um það hefði verið samið, að þetta frv. næði fram að ganga eins og það var á síðasta þingi. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þetta frv. er nú að ýmsu leyti mjög í öðru formi en þá. En hvað sem því líður, þá útilokar það ekki, að það ber að laga þá ágalla, sem á frv. eru. Það er ekki ætlunin hjá mér að gera stórkostlegar efnisbreyt. á því. Hv. frsm. n. hefur lýst yfir, að frv. verði tekið til athugunar og lagfært fyrir 3. umr., og sætti ég mig við það. En ég get ekki stillt mig um að geta þess til, að jafnorðhagur maður og hæstv. forseti hefði, áður en málið kom til 2. umr., lagfært 8. gr., ef hann hefði skilið hana.