15.01.1947
Neðri deild: 54. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

116. mál, nýjar síldarverksmiðjur á Norðurlandi

Flm. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Það má öllum ljóst vera, að vaxandi aukningu síldveiðiflotans hlýtur að fylgja sú nauðsyn, að síldarverksmiðjur séu í samræmi við það, svo að unnt sé fyrir veiðiflotann að losa veiðina sem fljótast og á heppilegustum stöðum. Verksmiðjurnar þurfa að vera þannig staðsettar, að not verði að öllu veiðisvæðinu. Það sjónarmið hefur nú verið ráðandi í aðalatriðum, yfirleitt hefur stefnan verið sú að hafa sem flestar verksmiðjur nálægt miðju veiðisvæðinu, en síðan dreifðar verksmiðjur til beggja handa, og loks myndarlegar verksmiðjur austast. og vestast við veiðisvæðið. Um miðhluta og vesturhluta þessa svæðis má telja þetta viðunandi eins og sakir standa, en ég tel óhætt að slá því föstu, að við austurhluta veiðisvæðisins sé alger vöntun. verksmiðju. Þessu frv., ef að l. verður, er ætlað að ráða nokkra bót á því. Það er vitað, að á hverju sumri er allmikil síld sunnan Langaness allt suður í Héraðsflóa, og stundum frá fjarðarbotnum út til hafs. Þetta veiðisvæði hefur ekki verið notað sem skyldi að undanförnu. Nærri því er aðeins ein lítil verksmiðja með örfá viðskiptaskip. Afleiðingin hefur orðið sú, að veiðiflotinn hefur hyllzt til að stunda veiðar á öðrum svæðum nær verksmiðjum, þótt síld væri austan eða sunnan Langaness, og er það eðlilegt. Fram að þessu hefur vöntun verksmiðju austan Langaness ef til vill ekki valdið miklu aflatjóni fyrr en í sumar. Flotinn hefur ekki verið meiri en það, að hann hefur haft nægilegt svigrúm norðan Langaness. Þó er vitanlegt, að síldin er sjaldnast dreifð jafnt um allt veiðisvæðið og fleiri eða færri skip hafa oft orðið að sækja hana austur fyrir Langanes. En þar er óhentugt um losun af fyrr greindum ástæðum, og enn fremur er oft erfitt í vissum áttum að sigla hlöðnum skipum norður fyrir Langanes til verksmiðjanna þar. Það er gamalt og nýtt áhugamál Austfirðinga, að reist verði síldarverksmiðja sunnan Langaness. En það er ekki aðeins áhugamál þeirra. Atvikin hafa nú hagað því þannig til, að hingað til hafa aðrir staðir orðið fyrir valinu, er byggðar hafa verið síldarverksmiðjur, og ekki þýðir að sakast um liðið. Austfirðingar hafa í þessu, eins og mörgu öðru, orðið að ástunda þolinmæði, og ekki má það víst teljast kvörtunarefni, því að þolinmæði er talin fögur dyggð. En ég ætla, að rás viðburðanna hafi nú gripið svo inn í málið, að um sameiginlega þörf allra, sem síldveiði stunda, sé að ræða varðandi byggingu síldarverksmiðju á þessum slóðum. Og það má fullyrða, að á annan hátt en þann, sem hér um ræðir, verði veiðisvæðið austan eða sunnan Langaness ekki nýtt á viðunandi hátt. Það verður ekki afsakað lengur, að skapa þar ekki viðunandi skilyrði í þessu efni. Við austfirzkir þm. hér í d. teljum á því höfuðnauðsyn, að verksmiðjan verði byggð nú þegar, og í því skyni höfum við lagt þetta frv. fram. Við gerum ráð fyrir því í frv., að það verði hlutverk ríkisstj. í samráði við stjórn síldarverksmiðja ríkisins og með aðstoð sérfróðra manna að ákveða verksmiðjunni stað, eftir að sömu aðilar hafa látið rannsaka, hvar hún verði heppilegast sett með tilliti til veiðisvæðisins og annarra aðstæðna. Við leggjum til, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 10 millj. kr. lán til framkvæmdanna. Ég ætla mér hér ekki að rökræða þá áætlun hér, því að á þessu stigi málsins, meðan veltur á 5–10 þúsund mála verksmiðju, liggur ekki neitt fyrir, sem nánari rökræða um kostnað gæti byggzt á. Ég sé svo ekki í rauninni ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Við flm. væntum, að hv. d. taki þessu máli vel og ég óska, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.