05.05.1947
Neðri deild: 121. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

158. mál, framfærslulög

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. hefur tekið fram, hefur n. farið gegnum frv. á milli umr. og átt tal við ýmsa menn um það, m. a. Ólaf Sveinbjörnsson lögfræðing, og telja þeir þær brtt., sem n. hefur gert, til bóta. Ég fyrir mitt leyti tel þær að vísu til bóta, og með þeim verður nokkuð meira aðhald fyrir sveitastjórnir gagnvart styrkþegum en áður. En með eina brtt. er ég ekki vel ánægður, það er 15. brtt. á þskj. 728, í sambandi við það, hvernig kona getur fengið úrskurð um það að fá meðlag með barni sínu frá Tryggingastofnun ríkisins, sem ríkissjóður svo endurgreiðir. Það munu vera um 60 mæður, sem hér er um að ræða.

Í frv., eins og það liggur fyrir, í 3. bráðabirgðaákvæðinu, er gert ráð fyrir því, að þessar mæður hafi gert ráðstafanir til þess að höfða barnsfaðernismál, eins og stendur í niðurlagi gr.: „Greiðslur þessar falla þó niður, ef móðir slíks óskilgetins barns, sem hér um ræðir, tapar barnsfaðernismáli því, er hún hefur höfðað.“ En nú skilst mér, að eftir brtt. á þskj. 729 við frv. til l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, sem er mjög líkt mál, þá sé gert ráð fyrir, að barnsmóðir geti fengið að staðfesta framburð sinn með eiði. Þar stendur : „Dómari getur með rökstuddum úrskurði heimilað barnsmóður að staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti, ef hún refur líkur með sér.“ Það er þarna sá munur, að konan þarf að staðfesta framburð sinn með eiði, en hérna er um það að ræða, að höfðað hafi verið barnsfaðernismál. Ég álít, að hér kenni nokkurs misskilnings, og mér finnst í sjálfu sér óeðlilegt, að kona fái að staðfesta framburð sinn með eiði, ef það eiga ekki að vera endanleg úrslit málsins, en það er ekki meiningin, að svo sé, heldur skal þessi skýrsla fara til viðkomandi ráðuneytis, til þess að slíkur eiður fái fulla staðfestingu, og barnið er ekki feðrað, þó að konan hafi unnið eiðinn. Ég tel hæpið áð fara þessa leið. Sú leið, sem farin er hér af n. og í samráði við framfærslufulltrúa bæjarins, má telja þá helztu, sem um er að gera í þessum efnum og sennilega gefur réttlátasta niðurstöðu.

Ég mun greiða atkv. með þessum brtt., þó að ég sé ekki fullkomlega ánægður með þær, vegna þess að mér er ljóst, að hér er aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða, því að hér er miðað við þær 60 mæður eingöngu, sem hafa fengið greiddan úr ríkissjóði barnalífeyri. Aðrar koma ekki til greina. Og um mæður óskilgetinna barna er miðað við fastákveðið tímabil, og er þar átt við mæður, sem hafa átt börn með setuliðsmönnum.