05.05.1947
Neðri deild: 121. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

158. mál, framfærslulög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna, að mér er ekki alveg ljóst, hvað þessi 1. liður í bráðabirgðaákvæðinu á að þýða. Ég álít þess vegna, að ástæða sé til þess að laga þetta í frv., af því að það liggur ekki svo ljóst fyrir. Eins og þetta er orðað, þá skilst mér, að með því hafi átt upphaflega að skylda sveitarstjórnir til þess að greiða þessar bætur, sem þarna er talað um, að einum tólfta þeirrar upphæðar, sem þeir styrkþegar heiðu fengið 1946. En hins vegar kveður þetta ekki á um frekari greiðslur til þessara manna, það er bara þessi einn tólfti hluti fyrir janúarmánuð. En ættu þeir þá ekki að fá neitt fyrir hina mánuðina? Það verður ekki séð af þessu ákvæði, að svo hafi verið. Ég óska skýringar á því, hvers vegna hér er sérákvæði fyrir janúarmánuð. Mér finnst eðlilegra að orða þetta þannig, að árið 1947 skuli allar sveitarstjórnir greiða öllum þessum bótaþegum einn tólfta alla mánuði, þá sem líða, þar til þetta frv. verður að l.

Þá vil ég geta þess, að ég held ég muni það rétt, að í eldri l. mun standa „þó skal“. Ég hef borið þetta saman, og ég ætla, að það sé ekki misminni hjá mér.