22.05.1947
Efri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

247. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar og leggur til, að frv. nái fram að ganga. Einn nm., hv. 4. landsk., hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun ég síðar gera grein fyrir honum.

Frv. þetta er borið fram að beiðni hæstv. sjútvmrh., en fjhn. Nd. flutti það.

Tilgangur frv. er sá að leitast við að draga saman í eitt öll lagafyrirmæli og reglugerðir um greiðslu og innheimtu útflutningsgjalda af sjávarafurðum, en þau eru nú í mörgum l. og reglugerðum. Þessi dreifðu ákvæði voru til mikilla erfiðleika, bæði fyrir þá, sem eiga að framkvæma þetta, og eins fyrir þá sem eiga við það að búa, og því er rétt og sjálfsagt að taka þetta saman í eina heild, en það er aðaltilgangur frv., og þær breyt., sem gerðar eru á gildandi l. og reglugerðum, eru hverfandi litlar. Gjaldið er það sama eða svipað og framkvæmdarákvæðin svipuð. Eina efnisbreyt. er sú, að útflutningsgjaldinu er að mjög óverulegu leyti breytt. En breyt. er sú, að fjhn. lagði til, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna fengi 1/8% af útflutningsgjaldinu. Meiri hl. fjhn. telur þetta eðlilegt og sjálfsagt, þar sem L. Í. Ú. er í forsvari fyrir útvegsmenn, það hefur unnið mikið þjónustustarf og því sjálfsagt, að það fái stuðning úr ríkissjóði. Ég vil einnig benda á það, að ekki er gengið á sjóðina, sem ekki mega við tekjumissi. Fiskveiðasjóður hefur allar sínar tekjur, en nokkuð er tekið frá fiskimálasjóði, en honum eru aftur á móti tryggðar áfram það miklar tekjur, að hann getur vel af þessu misst. Á þessum forsendum getur meiri hl. n. fallizt á þetta, en hv. 4. landsk. vill ekki fallast á þessa breyt., og lýtur fyrirvari hans að þessu atriði einu. Hann telur það óeðlilegt, að fénu sé varið þannig til stéttarsamtaka útvegsmanna. En meiri hl. vill samþykkja frv. óbreytt.