22.05.1947
Neðri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

261. mál, ný orkuver og orkuveitur

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Hv. fjhn. hefur orðið við beiðni minni að flytja þetta frv. Frv. þetta er flutt í samræmi við 9. gr. raforkul., þar sem gert er ráð fyrir því, að stjórnin afli sér árlega heimildar til aðgerða í raforkumálum, eftir að hún hefur komið sér niður á, hvað gera skuli í þeim efnum á næstunni.

Raforkumálastjóri hefur gert áætlun um framkvæmdir í þessu efni á næstu árum og lagt fyrir stjórnina. Þetta hefur sömuleiðis verið lagt fyrir raforkumálaráð, og hefur það fallizt á hinar fyrirhuguðu framkvæmdir í stórum dráttum og stjórnin sömuleiðis. Það, sem hér er farið fram á, er það, sem stjórnin hafði hugsað sér að framkvæma á næsta ári.

Það kom til orða milli mín og raforkumálastjóra að tengja þessi mál við fjárl. hvers árs, þannig að aflað sé í sambandi við fjárl. þeirra heimilda, sem þarf til þess að geta framkvæmt þessi mál. Ég ræddi þetta við fjvn., en það varð að samkomulagi milli mín og hennar, að eðlilegra væri að leggja fyrir hvert þing frv. viðvíkjandi þeim framkvæmdum, sem ætlazt er til, að gerðar verði á hverju ári. Það var því samþykkt að hafa þennan hátt á og að bera þetta fram með þessu móti.

Þetta er nokkuð síðbúið, en ég vænti, að takast megi að koma þessu fram á þeim fáu dögum, sem þing á eftir að standa, og vænti þess, að ekki verði fremur mótmælt hér á þingi en í raforkumálastjórn og raforkumálanefnd, að þessar framkvæmdir fari fram. Vona ég, að hv. d. geri sitt til þess að hraða málinu, svo að það komist í gegn á þessu þingi.