09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (3686)

80. mál, sóknargjöld

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. — Eins og fram kemur á þskj. 179 hef ég ekki getað orðið sammála hv. meiri hl. fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Er ástæðan sú, að ég tel, að sá skattur, sem hér um ræðir og er tekinn sem nefskattur, eigi ekki rétt á sér. Ég hygg, að yfirleitt eigi að afnema þennan skatt og taka skatta á annan hátt, ef nauðsynlegir eru, því að þessi skattur er tekinn af öllum jafnt, gamalmennum og sjúklingum sem öðrum. Þá vil ég benda á það, að nú liggur fyrir hv. Alþ. annað frv. um þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði kirkjuhúsa, og ef svo færi, að það yrði samþ., þá væri þaðan af síður ástæða til að hækka þessi gjöld, sem hér er farið fram á, og legg ég þess vegna til, að frv. verði fellt.