12.04.1947
Neðri deild: 112. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er nú sýnt af undanfarandi umr. hér og afgreiðslu þessara nýju laga, að ekki er unnt að koma í veg fyrir þessar nýju skattálögur. Ég vil ekki stofna hér til nýrra umr., þó að ástæða væri til þess út af ræðu, sem flutt var við 2. umr. máls þessa. Ég segi það nú, eins og ég hef alltaf sagt, að ég álit ekki þörf á að leggja þessa nýju tolla á og með því íþyngja alþýðu manna. Þessa tekjuaukningu ríkisins átti að taka af yfirstéttum þjóðfélagsins, en ekki af alþýðunni, en á henni bitna þessir tollar. Ég tel, að ekki hafi verið þörf á að grípa til þessara ráðstafana vegna útlits atvinnuveganna. Það er nú sýnt, að selja má útflutningsafurðir þjóðarinnar með betra verði en í fyrra, og útlitið því ekki verra, en þá var. Hins vegar er með þessu stefnt að aukinni dýrtíð í landinu og ekki ólíklegt, að alþýða rísi upp gegn þessum ráðstöfunum, en menn þeir, sem hamrað hafa þessar álögur fram, bera ábyrgð á verkum sínum, og þeir vita væntanlega, að hverju þeir ganga.