03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (3829)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef á fyrra stigi þessa máls, bæði á þessu þingi og því síðasta líka, þegar þetta mál var til umr., látið í ljós skoðun mína á þessu frv., og hef ég ekki miklu við það að bæta, en hv. flm. þessa frv., sá sem talaði síðast, hefur í sinni síðustu ræðu komið máli sínu þannig, að mér finnst ekki hægt að láta því ómótmælt, og þó einkum það, hvernig iðnaðarfræðslunni skuli komið fyrir í höfuðatriðum.

Hann byrjaði mál sitt á því, eftir því sem mér heyrðist, að hann hefði sannfærzt um það æ betur, því betur sem hann kynnti sér þessi mál, að það fyrirkomulag, sem við nú búum við í þessum efnum, væri með öllu óhæft. Síðan kom hann að vísu inn á það, að hann hefði ekki getað kynnt sér málið mjög rækilega, og aðallega skildist mér að lokum, að það væru upplýsingar frá einu landi eða einum manni um það land, sem hann hefði í höndum, svo að hans „studium“ þessu viðkomandi hefur ekki verið allt of víðtækt. Það er rétt, að frá þeim manni, sem við fólum að athuga þetta í Svíþjóð, liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar en þessar. En ég hef haft aðstöðu til að kynnast þessu frá fleirum og skýri frá því hér, sem kann að hafa þýðingu, að á fundi norrænna iðnskólamanna, sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum, þar sem ég var viðstaddur, var rætt um þetta mál fram og aftur, meistarakennslu og skólakennslu, hvort þætti heppilegra. Þar var maður, sem enginn ber brigður á, að hafi vit á þessum hlutum, sá Dani, sem áreiðanlega hefur mest kynnt sér iðnfræðslu, ekki aðeins í Danmörku, heldur og víðar um heim. Hann sagði í framsöguræðunni, sem hann hélt um þetta: „Meistarakennslan hefur hér á landi verið það kennsluform, sem hefur verið svo að segja einráðandi síðast liðin 400 ár.“ — Mér skilst, að það sé af þessum sökum, sem hv. flm. frv. kallar þetta form úrelt kennsluform, af því að það hefur verið notað í langan tíma. En hvernig hefur þetta 400 ára gamla form gefizt? Hann segir, að ástæðan til þess, hvað þetta kennsluform hefur verið lífseigt, sé hinn heilbrigði kjarni í þessari kennsluaðferð. Hann segir loks, þessi sami skólamaður, að ástæðan til þess, að farið hefur verið sums staðar frá meistarakennslu yfir í skólakennslu, sé ekki sú, að meistarakennslan sé ekki nógu góð, heldur hitt, að það hafi ekki verið hægt að skaffa hana. Það er ástæðan fyrir því, að farið hefur verið yfir í skólakennsluna, ekki af því, að meistarakennslan sé ekki æskilegra form, heldur af hinu, að ekki hefur verið hægt að skaffa nógu víðtæka meistarakennslu, þegar iðnaðurinn hefur verið spesialiseraður. Iðnaðurinn á Íslandi ætti ekki að vera kominn á það stig, að hann sé svo spesialiseraður. Sannleikurinn er sá, að þar, sem farið hefur verið inn í þessa skólakennslu, hefur það verið gert af því, að meistarakennsla hefur ekki fengizt nógu góð eða nægilega fullkomin handa nemum. Í Svíþjóð aftur á móti er það fyrirkomulag, eins og hv. flm. sagði, að mestur hluti kennslunnar fer fram í skólum, fyrst og fremst vegna þess, að ríkisvaldið hefur þar haft miklu minni afskipti af iðnaðarkennslu en gerist annars staðar á Norðurlöndum. Menn eru teknir þar til iðnaðarnáms án þess, að nokkrir samningar séu gerðir. Þeir eru við þetta í 3–4 ár, án afskipta hins opinbera, og þegar þeir eru búnir að þessu, taka meistarar þá í vinnu fyrir nokkru hærra kaup, og svo eru þeir búnir. En að forminu til er þetta íhlutunarlaust af hálfu hins opinbera. — Í Danmörku hefur verið viðhaft sama kerfi og hér, og hefur það gefizt vel. Þar gilda í þessum efnum l., sem eru svipuð íslenzkum l., og yfirleitt er öll iðnaðarkennsla í Danmörku meistarakennsla. — Í Noregi hefur verið haft enn annað form, þar sem hefur verið starfræktur forskóli í eitt ár eða 12 mánuði fyrir fyrstu námsgreinarnar, einstöku lengur, og þar er þessum skóla hnýtt við iðnfræðslukerfið, þannig að hann er liður í því kerfi.

Allt er þetta mjög ólíkt því, sem lagt er til í frv. hv. þm. Str. Að halda því fram, að iðnaðarstarfið sé orðið svo spesialiserað hér á landi, að af þeim sökum sé erfitt að láta nema fá fullkomna kennslu, sé ég ekki að geti átt sér stað, nema þá kannske í örfáum tilfellum. (HermJ: Hvað ætli sé mikið hér af ólöglegum nemum?) Ég veit ekki, hvað margir ólöglegir nemar hafa verið, en ég veit bara það, að í árslok 1945 voru hér á landi um 1500 löglegir nemar og í árslok 1946 er þessi tala komin upp í 1800. Tvö síðast liðin ár hafa byrjað iðnnám á venjulegan hátt á sjötta hundrað nemendur. Ég efast um, að það sé æskilegt fyrir þjóðfélagið, að fleiri en þetta fari yfir í iðnnám. Ég held, að séð sé fyrir þörf iðnaðarins með þessari tölu, sem er mjög verulegur hluti árlegrar viðkomu pilta í landinu. Og ég hef aldrei heyrt undan því kvartað, að piltar fengju yfirleitt ekki á þennan hátt nokkurn veginn þá kennslu, sem þeir þurftu að fá til þess að vera fullkomnir iðnaðarmenn. Það eru náttúrlega til undantekningar, en slíkt getur alveg eins komið fyrir í skólum. Ég held þess vegna, að meðan möguleikar eru til fyrir meistarakennslu og samkvæmt þeirri reynslu, sem bezt hefur fengizt erlendis, þá eigi ekki að hverfa frá henni. Mér virðist þess vegna, að það sé fjarri því, að meistarakennslan sé úrelt kennsluform, sem beri að flýja frá. Með hliðsjón af því móti, sem ég nefndi áðan, þar sem þetta var rætt í heilan dag, virðast öll rök mæla með því, að þar, sem meistarakennsla er möguleg, ætti hún að vera a. m. k. aðalkjarninn. Hitt gæti ég fallizt á, að væri að ýmsu leyti gott form, eins og Norðmenn hafa gert, að taka eins árs skóla inn í fræðslukerfið, sem gæti verið forskóli og kennt fyrstu frumdrög iðnaðar. En það er fjarri því, að þessi skóli, sem hv. þm. Str. er með, fullnægi því atriði, því að hann er, eins og ég áður hef lýst við umr. um þetta mál, þótt það kunni að vera óþinglegt orð, þá verður hann að teljast viðrini. (HermJ: En hvað um sænsku skólana?) Ég skora á hv. þm. Str. að nefna einn einasta sænskan skóla, sem er eins og þessi, þar sem einum og sama manni er skipað að læra sex iðngreinir á 2 árum og fara svo út í lífið og halda, að hann sé útlærður í öllum þessum iðngreinum, þegar hann er kominn úr skólanum. En það er, eins og ég sagði, viðrinisform. Ég get því vel tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að málinu verði vísað frá, því að þetta form verður engum til góðs.

Hv. þm. vitnaði í einn ágætan iðnaðarmann, sem ég þekki vel, og vildi segja, að hann hefði hlotið sína menntun eins og hér er gert ráð fyrir. Það vill svo til, að þessi maður hefur gefið umsögn um frv., því að í fskj., sem prentað er á þskj. 423, segir hann, að Landssamband iðnaðarmanna mundi ekki telja þá menn, er útskrifast kynnu úr umræddum skóla, kunnáttumenn og ekki æskilegt að láta þá taka að sér störf. Ég hef enga ástæðu til þess að rengja þennan ágæta mann, og í sömu átt hníga öll þau rök, sem birzt hafa í fskj. með þessu frv., öll mæla þau gegn frv.

Ég skal að lokum leyfa mér að benda á það út af því, sem hv. flm. sagði um það, að ef þessu frv. yrði vísað frá með rökst. dagskrá, væri rökrétt afleiðing af því að vísa einnig frá frv. til l. um iðnfræðslu, sem liggur hér fyrir þingi. Ég vil leyfa mér að benda á, að á þessu er reginmunur. Frv. um iðnfræðslu er undirbúið af mþn., sem starfaði að þeim undirbúningi í rúmt ár og lagði í það mikla vinnu. Í þeirri mþn. voru menn, sem representeruðu bæði sjónarmið sveina og meistara, og lögfræðingur, sem hefur fengizt mest allra lögfræðinga við meint brot á iðnaðarlöggjöfinni og þekkir þeirra kosti og gallá. Ég tel því, að sá undirbúningur, sem það frv. hefur fengið, sé á engan hátt sambærilegur við þann undirbúning, sem það frv. hefur fengið, sem hér liggur fyrir. Ég vil því vona, að hið fyrra frv. nái fram að ganga, ef skorinn verður af því sá agnúi, sem hér var inn settur og kippa mundi fótum undan allri iðnfræðslu, eins og hún er praktiseruð hér í þessu landi, ef samþ. kynni að verða.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta, en segi þessi orð að gefnu tilefni, því að þær upplýsingar, sem komu um þetta sænska form, virtust mér vera mjög einhliða og ekki skýrt frá ástæðunum fyrir því, hvers vegna kennsluformið er í Svíþjóð eins og það er, en frá því hef ég nú sagt.