13.12.1946
Neðri deild: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (3844)

101. mál, sala spildu úr landi Englands

Flm. (Pétur Ottesen):

Þannig stendur á, að jörðin Gilstreymi í Lundarreykjadal er önnur fremsta jörðin í dalnum. Þar er myndarlegur búskapur, hýsing í bezta lagi, og er þegar búið að taka til ræktunar allt það land nærri bænum, sem tiltækilegt þykir að rækta. En svo hagar til landamerkjum milli Gilstreymis og Englands, sem var kirkjujörð frá Lundi að fornu, að þau eru heima undir túni í Gilstreymi, en land þeirrar jarðar er í aðrar áttir frá bænum, og þó einkum til fjalls, og er það bæði mikið og við hæfi jarðarinnar. Frá Englandi eru aftur á móti 3½ km. út að landamerkjunum milli bæjanna. Nú hefur bóndinn í Gilstreymi farið fram á að fá keypta um 5 ha. landsspildu af landi Englands við landamerkin, og er það land sæmilegt til ræktunar með því að þurrka það upp. Í því skyni hefur hann leitað samþykkis ábúanda Englands, umráðamanns jarðarinnar, sem er hreppstjórinn í Lundarreykjadalshreppi, og prófastsins í Borgarfjarðarprófastsdæmi, og eru þeir allir samþykkir því fyrir sitt leyti, að bóndinn í Gilstreymi fái keypta þessa landspildu, eins og frá er skýrt í grg. þessa frv. Rýrir þetta í engu gildi Englands, því að þar er gott og mikið land til. ræktunar heima við bæ. Með tilliti til þess, hve mikla þýðingu þetta mál hefur fyrir áframhaldandi byggð í Gilstreymi, vildi ég nú mælast til þess við hv. Alþ., að það veitti ríkisstj. heimild til að selja þessa litlu landspildu. Á undanförnum árum hefur þrásinnis verið leitað til Alþ. með svipuð tilmæli, enda virðist liggja opið fyrir og vera sjálfsagt að sinna þeim til að tryggja búskap vissra jarða, gefa færi á að skipta nokkru landi á milli þeirra, þar sem það getur haft úrslitaþýðingu fyrir byggð jarðanna og myndarlegan búskap þar. Ég mælist svo til þess, að frv. verði vísað til hv. landbn., eins og venja er til um slík mál, og vænti þess, að n. taki það til velviljaðrar athugunar og afgreiðslu við fyrstu hentugleika.