30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (3847)

101. mál, sala spildu úr landi Englands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Landbn. hefur athugað þetta frv. Það er þannig vaxið, að jörðin Gilstreymi í Lundarreykjadal er landlítil jörð og hefur lítið ræktunarland, en skammt frá landamerkjum hennar og tiltölulega stutta leið frá núverandi túni liggur land annarrar jarðar, Englands í Lundarreykjadal, og í því landi, rétt við landamerkin, er landspilda, sem er mjög gott ræktunarland, liggur um 3½ km frá Englandi eða frá túni þeirrar jarðar og er því miklum mun óheppilegra til ræktunar frá þeirri jörð en frá Gilstreymi. Nú óskar ábúandi Gilstreymis að fá þessa ræktunarspildu keypta, og þetta hefur verið borið undir alla þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli, bæði ábúanda Englands, umboðsmann jarðarinnar og alla, sem þetta snertir á einhvern hátt, og hafa allir orðið sammála um að mæla með því, að þessi landspilda verði látin af hendi til ábúanda jarðarinnar Gilstreymis. N. taldi eðlilegt að verða við þessum tilmælum og mælir því með því, að frv. verði samþ.