08.05.1947
Efri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3936)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér virðist það vera orðalag dagskrárinnar, sem 3. landsk. sættir sig sízt við, en ég skal ekki fara frekar út í það. Hins vegar vil ég fara nokkrum orðum um þetta mál og þau afskipti, sem nýbyggingarráð hefur haft af því.

Þegar flm. breiðir sig út yfir nýbyggingarráð með ásakanir út af þessu, þá gætir hann ekki að því, að hér er um fyrirtæki að ræða, sem reisa skal á allt öðrum grundvelli en venja er til og á allt öðrum grundvelli en nýbyggingarráð hefur starfað á. Það var í upphafi yfirlýst stefna nýbyggingarráðs, að einstaklingsframtakið yrði ekki sett lægra en bæjar- og sveitarfélög, og þessari stefnu hefur verið fylgt þannig, að bæði einstaklingar og félög, sveitarfélög sem önnur félög, hafa verið studd eftir megni, en það hefur ekki verið lagður hyrningarsteinn að ríkisrekstri. Í framkvæmdinni hefur þetta mest orðið þannig, að menn hafa tekið höndum saman til þess að koma upp hraðfrystihúsum og öðrum nauðsynlegum fyrirtækjum og víða lagt mjög mikið á sig, en fyrir þessa menn og með þessum mönnum hefur nýbyggingarráð fyrst og fremst starfað. Mörg dæmi er hægt að nefna um það, hvernig einstakir menn og félög hafa bundizt samtökum, og oft var það látið fylgja með umsóknum, hvað þeir hefðu lagt á sig og hvað þeir vildu leggja á sig. Á Vestfjörðum hefur verið reist ísver. Það mun vera á Súgandafirði, en það hefur verið byggt í félagi og með samtökum allra áhugasamra manna, og svo hefur víðar verið. Eitt pláss hefur þó skorið sig úr, hvað þetta snertir, og það er Ísafjörður, en þar hefur að vísu verið áhugi, en bara svo mikill, að hann rúmaðist ekki í einum félagsskap, þ.e.a.s. Ísafjörður er eina byggðarlagið, sem ekki hefur getað komið sér saman um að reisa ísver, og það er það fyrst og fremst, sem hefur valdið því, hvernig nú er ástatt. Bæjarstjórnin hafði mikil afskipti af þessum málum, en þó skilst mér, að flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, séu hvor úr sinni klofningsdeild. Við þessi vandræði, sem fram komu á Ísafirði, var hvergi annars staðar að glíma. Það er fjarri því, að nýbyggingarráð hafi ekki viðurkennt þörf Ísfirðinga fyrir fiskiðjuver, en það var bara ekki svo hægt um vik, þegar tveir aðilar sóttu um, því að vita mátti, að stofnlánadeildin gæti ekki fallizt á, að reist yrðu þar tvö ver nú þegar. Það var því þetta lánleysi Ísfirðinga, að þeir gátu ekki komið sér saman, þó að nýbyggingarráð skrifaði þeim hvað eftir annað og brýndi þá til samstarfs, sem veldur því, að þeir eru ekki búnir að koma sér upp ísveri. En eftir þetta grípa þeir til þess úrræðis að reyna að láta ríkið hlaupa undir baggann og losa sig með því undan allri ábyrgð, en eins og ég drap á áðan, þá er þetta mjög vafasöm braut, sem ekki hefur verið lagt inn á hingað til og brýtur í bága við þá stefnu að styðja einstaklingsframtakið og félagssamtök til þess að hrinda þessum málum og öðrum í framkvæmd, bæði með ódýrum stofnlánum og margháttaðri aðstoð annarri, og fá með því einstaklingana til þess að taka virkan þátt í þessari nýsköpun, en láta ekki ríkið taka ómakið af öllum hlutaðeigandi. Ég hef áður bent á það, að með því að ríkið fari inn á þá braut að reisa ísver og annað því líkt, þá er svo hætt við, að sá áhugi og sú fórnfýsi, sem almenningur hefur sýnt, dvíni eða jafnvel hverfi. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er því ekki nýsköpunarstefna. heldur víxlspor, sem tveir alþingismenn stíga út af félagslegum vandræðum, sundurþykkju, sem þeir hafa þó sjálfir kynt eldinn að. Hv. þm. minntist á, að nú þegar væri verið að reisa fiskiðjuver ríkisins hér í Reykjavík. Það má að vísu segja, að svo sé, en þær framkvæmdir eru ekki á vegum nýbyggingarráðs eða gerðar með þess samþykki. Þær framkvæmdir eru algerlega á vegum fiskimálanefndar og sennilega gerðar með samþykki fyrrverandi atvmrh., en nýbyggingarráð hefur þar ekki verið til ráða kvatt. En eins og gefur að skilja, þá hafði nýbyggingarráð ekkert vald til þess að banna framkvæmd á þessum grundvelli. Í upphafi átti að reisa þetta ísver fyrir fé, sem fiskimálanefnd hafði með að gera, en þar sem kostnaðurinn fór mikið fram úr því, sem gert var ráð fyrir, þá fékk þetta fyrirtæki fé úr stofnlánasjóði, því að ríkissjóður vildi ekki leggja því fé, en þá var líka búið að reisa húsið, svo að ekki var um annað að gera en halda áfram. Af þessu má sjá, að hér er ekki um að ræða fyrirtæki á sama grundvelli og þetta frv. leggur til. Þá var þessi hv. þm. að minnast á, að fyrir lægi frv. um fiskiðjuver í Flatey, en þó að svo sé, þá er ekkert um það, að ríkið reisi fiskiðjuver í Flatey. Það er mikill munur á því, hvort ríkið styrkir eitthvert fyrirtæki, eða það reisi það og reki algerlega, og ef á að fara inn á þá leið, þá er algerlega komið út fyrir þann ramma, sem nýbyggingarráð hefur starfað innan. Ég fyrir mitt leyti tel mjög hæpið að leggja inn á þá leið, þó að það gætu verið þær aðstæður fyrir hendi, að þess þyrfti, og er það þá helzt í sambandi við landshafnir á afskekktum stöðum, því að ef lagt er í landshafnir, þá er nauðsynlegt að hægt verði að nota þær, en þetta á ekki við um fjölbyggða kaupstaði.

Það hefur verið framfylgt þeirri reglu, sem sett var með l. um nýbyggingarráð og framkvæmd af ráðinu, en sú regla er þannig, að það opinbera aðstoði einstaklinga, bæjarfélög og sjómannasamtök til að koma þessu í framkvæmd, og víða er það komið vel á veg. Og meðan haldið er þessari allsherjarstefnu, þá tel ég það mjög óheppilegt fyrir framgang þeirrar stefnu og fyrir framgang þeirra vinnubragða, að fólkið sjálft taki virkan þátt í nýsköpuninni, að blaðið sé brotið við og sagt: Nú gerir ríkið þetta, ríkið reisir fyrst stórt fiskiðjuver á Ísafirði og síðan á Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Siglufirði og guð veit hvað víða, því að um leið og slík stefna er upp tekin, er kippt fótum undan þeim framfaravilja, sem kann að vera fyrir hendi og venjulega er fyrir hendi hjá fólkinu sjálfu á þessum ýmsu stöðum. Það er þetta, sem ég hef á móti því fyrir mitt leyti, að sú breyt. sé nú gerð, að ríkið taki að sér að koma upp fiskiðjuverum. Ég hef þess vegna sömu skoðun í þessu máli og þegar það kom fyrst fram, og það er búið að upplýsa og það er vitað, að málið. er því aðeins fram komið, að í þessu eina plássi, Ísafirði, hefur skorizt svo í odda hjá þeim mönnum, sem að eðlilegum hætti hefðu átt að standa saman að því að koma upp hraðfrystihúsi og fiskiðjuveri, — og þetta hefur hvergi skeð annars staðar á landinu, og þessir menn, sem mestu ósamþykki hafa hleypt í málið heima í sínum kaupstað, koma nú hér á þingi og taka saman höndum um að komast út úr vandanum með því að leggja allt á herðar ríkisins. Það er m.ö.o. ríkið, sem á, að bæta fyrir þeirra ágreining og ofríki hvers í annars garð.

En svo vil ég að lokum benda á það, að þessi stefna virðist ekki eiga sér öruggt fylgi í kaupstaðnum, vegna þess að hv. þm. Ísaf. fékk því til vegar komið að setja ákvæði inn í 22. gr. fjárl. um sérstakan aukinn stuðning við fiskiðjuver á þessum stað fram yfir þann stuðning, sem annars er veittur, án þess að minnast á, að það eigi að vera ríkisrekstur á því. Ég er að minnsta kosti sannfærður um, að þessi till., sem hv. þm. Ísaf. bar mjög fyrir brjósti og fékk stjórn og fjvn. til að standa að, hefur ekki hvað sízt verið miðuð við það, að hans kjördæmi gæti, eins og eðlilegt er, notið góðs af þessu eins og öðru fleiru, ef til kæmi. Þetta er ljós vottur þess, að hv. þm. hefur opin augu fyrir því, að Ísafjarðarkaupstaður þarf að fá gott fiskiðjuver. Um það eru allir sammála, og nýbyggingarráð hefur, eins og ég áður sagði, greinilega undirstrikað þá þörf í bréfi sínu til stofnlánadeildarinnar, og í öðru lagi virðist hann ekki vera eins mikið inni á þessari ríkisrekstrarhugmynd og hv. 3. landsk. og sá hv. þm., sem flutti með honum frv. á sínum tíma. Ég held þess vegna, að dagskráin eigi rétt á sér, a.m.k. efnislega hliðin, hvað sem orðalaginu líður. Ég tel á þessu stigi málsins ákaflega varhugavert að fara að breyta til og fara að reisa fiskiðjuver eingöngu á ríkisins kostnað og hefja þar ríkisrekstur, þar sem við höfum löggjöf um þessi mál, sem framfylgt hefur verið af nýbyggingarráði, þar sem byggt er á öllu öðru en ríkisrekstri.

Viðvíkjandi þeirri aths. hv. þm., að ekki sé mikið að treysta á nýbyggingarráð, að það vinni mikið að þessum málum hér eftir, þá vil ég benda á, að þótt það geri það ekki, þá er löggjöf á leiðinni, þar sem gert er ráð fyrir að stofna annað ráð, fjárhagsráð, sem taki við öllum þeim málefnum og erindum, sem nýbyggingarráð hefur nú. Núverandi ríkisstj. hefur þá yfirlýstu stefnu að halda nýsköpuninni áfram, svo að það, sem hér er talað um, að sé verkefni nýbyggingarráðs, það yrði þá í verkahring fjárhagsráðs. Dagskráin á því fullan rétt á sér, þó að hún tali um stofnun, sem að eðlilegum hætti hverfur, en hverfur aðeins til að rýma fyrir annarri stofnun, sem á að starfa á sama sviði, en hefur sennilega meiri úrræði og miklu meira vald til að vinna að verkefnum í framtíðinni en nýbyggingarráð, svo að af þeirri einu ástæðu ætti þessi hugmynd ekki að vera í neinni hættu. Þar yrðu þá metin þau rök, sem hafa verið færð fram með og móti því, hvort hverfa eigi af þeirri braut, sem mörkuð hefur verið í þessum málum, en taka upp í þess stað ríkisrekstur og ríkisstofnanir í fiskiðnaði; ekki á einum stað í landinu, heldur á fleiri stöðum, ef ætti að taka til greina þær ástæður, sem færðar eru fram fyrir þessu sérstaka frv.