08.05.1947
Efri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (3937)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þessar umr. hafa nokkuð leiðzt inn á að ræða um það, hvort koma skuli upp fiskiðjuverum ríkisins yfirleitt. Ég gat um það í minni framsöguræðu, að ég vildi ekki svo mjög ræða um það á þessu stigi, af því ég taldi það ekki eðlilegt, og eins og hv. 6. landsk. benti á, þá gefst tilefni til að ræða það út af fyrir sig, þegar til þessarar d. kemur frv. um fiskiðjuver ríkisins. Þess vegna mun ég leiða hjá mér að ræða mjög þá hlið málsins, en ef hv. 3. landsk. óskar að ræða efnislega þá hlið, þá er ekkert því til fyrirstöðu að gera það, en ég taldi ekki nauðsyn að gera það að þessu sinni.

Hv. 3. landsk. virðist alls ekki hafa lesið hina rökst. dagskrá, ef marka má ummæli hans í hans ræðu, því að þótt honum sé það af guði gefið að umsnúa öllu, sem kemur fyrir þessa d., hvort sem það er mál manna eða þskj., þá skil ég ekki, hvernig hann hefur getað fengið það út úr dagskránni, að með þessu væri sjútvn. í raun og veru að leggja til, að rannsakað yrði, hvort Ísafirði ætti að vera gert kleift að starfa áfram sem útgerðarstaður. Ég get ekki fengið það út úr dagskránni og ekki heldur, að neitað hafi verið eða efazt um, að skilyrði séu á Ísafirði til að reka fiskiðjuver. Það væri æskilegt að fá að vita, hvernig hv. þm. getur fengið slíkt út úr dagskránni, að það þurfi nokkuð sérstaklega að rannsaka það á Ísafirði. Ég vil óska, að hann athugi dagskrána miklu betur. Hún fer ekki inn á neitt annað en að ríkisstj. láti athuga, hvaða tegundir fiskiðjuvera sé mest aðkallandi að reisa, en það gefur ekkert tilefni til fullyrðinga um, að þurfi að rannsaka skilyrði fyrir fiskiðjuver á Ísafirði. Enn fremur á að rannsaka, á hvaða stöðum á landinu séu skilyrði til að reisa fiskiðjuver. Þar geta komið fleiri staðir en Ísafjörður til athugunar. Þá gætu komið fram staðir, sem það upplýstist um við rannsókn, að ætti að byrja á fyrr, ekki af því, að ekki sé nægilegt fiskimagn fyrir hendi á Ísafirði, heldur eins og hæstv. fjmrh. sagði, að það kæmu ýmis fleiri atriði til greina en að veiða þorsk og ýsu. Í þriðja lagi er ætlazt til að rannsaka, hvort nauðsynlegt sé, að ríkissjóður veiti frekari stuðning en gert er ráð fyrir í núgildandi l., með öðrum orðum, hvort það sé heppilegt fyrir fólkið í landinu, að ríkið taki að sér að byggja iðjuver og reka þau og hverfa frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið hingað til. Það er það einasta, sem n. leggur til. Ég vil ekkert um það segja á þessu stigi málsins, hvort það sé heppilegt, að ríkið taki að sér að byggja og reka öll fiskiðjuver í landinu eða það sé gert á þann hátt, sem nú er gert. Það er vitað um fulltrúa eins flokks, Sósfl., að þeir telja, að ekki þurfi að rannsaka þetta, en fulltrúar hinna flokkanna líta svo á, að þetta þurfi frekari rannsóknar við en enn hefur legið fyrir, en það kemur ekkert við því atriði, sem hv. 3. landsk. sagði, að þyrfti ekki að rannsaka, hvaða skilyrði væru til að reka fiskiðjuver á Ísafirði. Öll hans ummæli um það eru hreint og beint út í bláinn.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að það mundi hverju byggðarlagi út af fyrir sig vera hagur, ef fiskiðjuver væri reist þar og kostað af ríkinu, eins og farið er fram á í þessu frv. M.a. er ákveðið, að það skuli greiða ákveðið gjald, hvorki meira né minna en 1/2% af brúttó-andvirði seldra afurða, til sveitarsjóðs. Það eru ákaflega stór hlunnindi. Það er talsvert mikill munur fyrir bæ, sem hefur verið stjórnað þannig, m.a. af þessum hv. þm., að búið er að flæma burt, eins og gert hefur verið undanfarið, talsvert af mönnum, sem hafa viljað vinna sjálfstætt að atvinnurekstri, það er búið að flæma þá burt með álögum, og nú er svo komið á þessum stað, að verið er að hrópa til Alþ. og ríkissjóðs að byggja þar milljónafyrirtæki og tryggja þeim fyrirfram ákveðið gjald til handa bænum, sem undanfarna áratugi hefur verið stjórnað þannig, að fólkið hefur verið flæmt burt úr þessum stað. Það er því ekki furða, þó að taugar þessa hv. þm. kæmust í ólag, þegar hann varð þess var, að sjútvn. vill ekki hjálpa þeim til að reisa þarna við á þann hátt, sem hér er farið fram á. Það mundu fleiri sveitar- og bæjarsjóðir en Ísafjörður, þó að ekki hefði verið farið eins með þá og farið hefur verið með þennan stað, vilja eiga aðgang að þeirri gullkistu í framtíðinni.

En svo er annað atriði, sem er alveg órannsakað mál, hvort það er útgerðinni nokkur hagur, að ríkið reki slík iðjuver. Ég skal ekkert um það fullyrða í dag, en geymi mér að ræða um það, þangað til rætt verður um fiskiðjuver ríkisins almennt.

Hv. þm. beindi skeytum sínum til nýbyggingarráðs og taldi, að það hefði verið aðgerðalítið þessi tvö ár. Hæstv. fjmrh. hefur svarað þessu, en ég vil aðeins segja það, að afgreiðsla þessa máls gaf hv. þm. ekkert tilefni til slíkra orða. Hvort hann hefur fundið tilefni til þess í umsögn nýbyggingarráðs, skal ég ekki segja, en vil aðeins benda á, að í niðurlagi bréfs síns fer ráðið lengra en sjútvn., því að þar tekur það fram, að það óski, að málið sé afgr. með rökst. dagskrá, sem feli í sér, að ríkisstj. sé falið að láta rannsaka og gera till. um, hvar reisa skuli fiskiðjuver ríkisins. Þetta vildi sjútvn. ekki fallast á, því að með því var alveg mörkuð sú stefna, að það skuli þó reisa fiskiðjuver ríkisins, en um það hefur ekki gengið enn efnisleg afgreiðsla í sjútvn., og það er þess vegna, sem dagskráin frá n. er orðuð á annan hátt. Mér þykir rétt, að þetta komi fram. Meiri hl. n. vill ekki ákveða í dag, hvort skuli reisa nokkurt fiskiðjuver ríkisins, en nýbyggingarráð virðist hafa verið undir þeim áhrifum, svo að ekki sé sagt meira, að vilja, að það gæti komið til mála, að fiskiðjuver ríkisins yrðu reist. Þess vegna hefur það sett þessi orð sín í bréfið, en þetta vildi sjútvn. ekki á þessu stigi málsins leggja til, en vildi hins vegar leggja til, að málið væri allt rannsakað, eins og kemur fram í dagskránni, ekki að það sé rannsakað, hversu auðug fiskimiðin séu kringum Ísafjörð, það þarf ekki að rannsaka, heldur að rannsaka, eins og tekið er fram í dagskránni, hvort sé farsælla, og það er meginatriðið, hvort fiskiðjuver skuli reist og rekin af ríkinu eða einstaklingum og félagasamtökum sjómanna. Það hefur verið rætt um annað stórt fiskiðjuver undanfarna daga, síldarverksmiðjur ríkisins. Það eitt er víst, að það verður að leggja byrðar á einhverja til að borga það, sem þar hefur miður farið, og það er sannarlega ekki álitlegt að fara nú að samþ. sams konar löggjöf fyrir fiskiðjuver, sem sjómenn eiga að eiga afkomu sína undir í framtíðinni. Ég er alveg viss um, að svona lagað hefði ekki komið fyrir, ef einstaklingar eða félagasamtök hefðu verið að byggja verksmiðjuna. Ég er þess fullviss, að þá hefði það ekki komið fyrir, sem nú hefur komið fyrir, þegar verið var að byggja hjá ríkinu, og það er hægt að benda á, að svo hefur ekki verið, þegar einstaklingar hafa verið að reisa sams konar iðjuver.

Út af því, sem hv. þm. var að benda á fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík, þá vil ég benda honum á, að sú verksmiðja er byggð af fiskimálan. Ef hv. þm. flettir upp l. nr. 75 31. des. 1937 og athugar 14. gr. l., þá sér hann, hvaða vald er gefið viðkomandi ráðh. og hvort ríkisstj. í heild getur tekið það vald af honum eða neinn annar að óbreyttum l. Þar segir, að því fé, sem veitt er fiskimálasjóði, sem er hluti af útflutningsgjaldinu, skuli varið til ákveðinna verkefna, eins og getið er um í 14. gr. Þessi verkefni eru margvísleg, m.a. markaðsleit og að byggja frystihús og fiskiðjuver um landið. Í síðasta lið, 5. lið gr. hér er svo þetta ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt, ef henta þykir, að fela fiskimálanefnd einni ýmsar framkvæmdir samkvæmt framanskráðu, eftir nánari fyrirmælum ráðherra.“ Í krafti þessarar málsgr. hefur þessi ráðh. tekið milljónir úr fiskimálasjóði til þess að byggja fiskiðjuver, án þess að önnur eða meiri lagaákvæði hefðu verið sett um það atriði. Þetta er annað en að ríkið byggi fiskiðjuver hvar sem er á landinu. Ég get sagt hv. 3. landsk., að það er mjög deilt um það atriði, hvort ráðh. hafi haft nokkurt vald til þess eða fiskimálan. að taka þetta fé og nota það þannig. (HV: Vissi fjmrh. ekki um, þegar féð var greitt? ) Það lá ekki í hans kassa. Það er greitt til fiskimálan., og n. ein hefur vald til að ráðstafa þessu fé ásamt þeim ráðh., sem fer með þau mál. Þetta veit hv. 3. landsk. Hitt er annað atriði, að fiskimálan. tekur sín lán eins og hver annar aðili hjá bönkum og öðrum stofnunum, það er eðlilegt, en að blanda því saman við það mál, sem hér er til umr., er ekkert annað en röng málfærsla, gersamlega röng. Ég er ekki að réttlæta það, sem gert hefur verið hér. Ég álít, að það hefði verið miklu eðlilegra og betra fyrir sjávarútveginn, að þessu fé hefði verið varið miklu meira til markaðsleitar, og það er þess vegna, sem fiskimálan. og útgerðarmönnum hefur nú verið neitað af fjvn. um stórkostlegt fé til að leita að mörkuðum út um lönd vegna þess, hvernig þeir hafa farið með þennan sjóð, og vísað til þess, að það er alveg vafasamt, hvað mikla heimild ráðh. og fiskimálan. hafa haft til að taka þetta fé til bygginga, en vanrækja næstum öll önnur verkefni, svo sem að leita markaða. Það er ekki hægt að hafa þetta sem rök fyrir því, að ríkið eigi að byggja fiskiðjuver á Ísafirði.

Ég þarf ekki að ræða það ósamkomulag, sem verið hefur á Ísafirði um þetta mál, hæstv. ráðh. hefur gert það. En það er ákaflega auðveld aðferð, þegar menn geta ekki lengur komið sér saman, að hlaupa til ríkisins og láta það taka að sér allan kostnað við að sætta þessa aðila.

Í sambandi við þá ábyrgð, sem hann minntist á, að ég væri að óska eftir í þáltill. fyrir frystihús í Flatey, þá er það gersamlega óskylt mál. Í fyrsta lagi er það, að þessi ábyrgð er því miður ekki fengin enn þá, svo að ég veit ekki, hvaða afgreiðslu málið fær á þingi, og erfitt að spá um, hvort hún fæst, en hinu vil ég alveg mótmæla, að þótt hún fengist, þá ætti hún að vera mælikvarði á afgreiðslu þessa máls, og það er af rökum, sem ég nú skal greina. Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að benda hv. 3. landsk. á, að í fjárl. frá síðasta þingi er í 22. gr. heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast 160 þús. kr. lán fyrir Ólafsfjarðarkaupstað til að koma upp fiskimjöls- og niðursuðuverksmiðju. Þetta er annað en að ríkið skuli koma upp slíkri verksmiðju á Ólafsfirði. Sama er að segja um Stykkishólm. Sveitin er í ábyrgð þar, til að íbúarnir geti keypt togara. Það er allt annað en að ríkið kaupi einn eða fleiri togara til að gera þar út. Ég veit, að svo vel gefinn maður sem þessi hv. þm. skilur eðlismuninn á þessu. Í Flatey hefur kaupfélagið lofað 130 þús. kr., íbúarnir 70 þús. kr. og hreppurinn 150 þús. kr., og svo er farið fram á ábyrgð fyrir 150 þús. kr., auðvitað gegn þeim tryggingum, er stj. metur gildar. Að líkja þessu við það að setja upp milljónafyrirtæki, sem sé í einu og öllu stofnað og rekið af ríkinu, er svo fjarri öllum sanni, að mér dettur ekki í hug að halda, að hv. þm. hafi meint það.

Ég skal svo verða við ósk hæstv. forseta og lengja ekki umr. meira og læt máli mínu lokið.