27.01.1947
Neðri deild: 59. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3957)

138. mál, embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna

Flm (Gylfi í Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar sem ég hef ritað alllanga grg. með þessu frv., get ég látið nægja að fara aðeins örfáum orðum um það á þessu stigi málsins. — Í þessu frv. um embættaveitingar og ráðning opinberra starfsmanna eru þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi, að óheimilt sé að stofna til embættis eða opinbers starfs nema með sérstakri lagaheimild. Í öðru lagi, að öll embætti og opinber störf skuli auglýsa til umsóknar. Í þriðja lagi, að áður en ráðh. veiti embætti, skuli hann ætíð leita umsagnar tiltekins embættismanns um það, hver sé hæfastur til að hljóta stöðuna. Um 1. og 2. atriðið hygg ég, að ekki geti verið ágreiningur. Í raun og veru er það svo, að samkv. stjórnskipun ríkisins er ráðh. óheimilt að stofna til embætta án lagaheimildar. Framkvæmdarvaldið, ríkisstj., getur ekki bakað ríkinu útgjaldaskyldur, án þess að heimild sé til þess í sérstökum l., a.m.k. fjárl. Engu að síður hefur kveðið nokkuð að því á síðari árum, að til embætta og opinberra starfa hefur verið stofnað, án þess að Alþ. hafi nokkuð verið um það spurt eða leitað hafi verið nokkurrar heimildar til slíks, og hefur þetta valdið miklu ósamræmi í því, hvernig til einstakra embætta og opinberra starfa hefur verið stofnað.

Fyrir nokkru stóð hörð deila hér á Alþ. um það, hvort stofna skyldi til tveggja dósentsembætta við háskólann, annars í sögu, en hins í bókmenntasögu, og óx sumum mjög í augum þau útgjöld, sem þetta mundi skapa, og var það marið í gegn með litlum meiri hl. En þegar þess er gætt, að s.l. tvö ár hefur verið skipað í 10 embætti við atvinnudeild háskólans af ráðh., án þess að Alþ. hafi haft þar nokkuð um að segja, þá skýtur heldur skökku við, að þar eru veitt mörg embætti við sömu stofnunina, sem Alþ. hafði deilt um, hvort ætti að fjölga embættum við, án þess að löggjafinn kæmi þar nokkuð nærri. Ég er ekki að áfellast stofnun þessara embætta við atvinnudeildina, en aðeins benda á það ósamræmi, sem er á embættisveitingum við sömu stofnunina. Ég hef borið fram fyrirspurn til hæstv. atvmrh. varðandi embættaveitingu við atvinnudeildina, en hann hefur ekki enn séð ástæðu til að svara henni. Ég hygg því, að varla geti orðið um ágreining að ræða varðandi þetta atriði, að halda þessari reglu í heiðri, sem er lögvernduð í stjskr., enda mun hitt vera tiltölulega nýr siður.

Þá tel ég það annað meginatriði frv., að auglýsa beri embættin, áður en þau eru veitt. Það er nauðsynlegt til þess, að hæfir menn veljist í embættin, og sjálfsögð réttlætiskrafa gagnvart þeim, sem hugsa sér að vinna í þjónustu ríkisins. En á þessu hefur verið allmikill misbrestur, og er þess skemmst að minnast, að landbrh. veitti fyrir fáum dögum embætti, án þess að auglýst hefði verið.

Um þriðja meginatriði frv., til hverra ráðh. skuli leita umsagnar varðandi veitingu embætta, skal ég játa, að um ágreining getur orðið að ræða. En það er mjög nauðsynlegt, að til séu fastar reglur um þetta atriði. Slíkar reglur eru í hefð í nágrannalöndunum og þeim stórveldum, sem næst okkur eru. Það ræður auðvitað af líkum, að þau lönd eru þar lengra á veg komin en við, þar sem þau eiga að baki sér lengri þróun þeirra mála. Svo skammt er, síðan Íslendingar tóku öll mál í sínar hendur, að slíkar reglur hafa ekki enn náð að festast hér. Hér veldur og nokkru um fámenni þjóðarinnar og kunningsskapur, og ef athugaðar væru embættaveitingar, frá því að æðsta stjórnin fluttist inn í landið, kæmi í ljós mikil óánægja út af þessum veitingum og skortur á, að sambærilegum reglum væri fylgt. En það leikur ekki á tveim tungum, að nauðsyn er á slíkum reglum, til þess að til starfa veljist hæfir menn, og það er sanngirniskrafa þeirra manna, sem ganga vilja í þjónustu ríkisins, að fastar reglur verði um þetta settar og þeir viti, að góðar og viðhlítandi reglur séu til. En til þess að tryggja réttlæti í veitingu embætta er sú leið farin, að ávallt skuli leita umsagna manna, sem setið hafa lengi í embættum og þekkingu og reynslu hafa í þeim málum. En ekki þótti tiltækilegt að taka veitingavaldið úr höndum ráðh. og láta embættismenn hafa það með höndum, því að rétt er, að sá hafi það, sem ábyrgðina ber, en nauðsynlegt er að tryggja það, að tekið sé tillit til hefðar, sem skapazt hefur, og að sá hefð sé góð og réttlát. Sú leið, sem hér er stungið upp á, er að leita ávallt umsagnar ákveðinna manna, svo sem nánar er greint í frv.

Embættunum er í frv. skipt í tvennt, embætti, sem lúta forstöðuembættum, og forstöðuembætti. Um forstöðuembættin skal leita umsagnar skrifstofustjóra stjórnarráðsins og deildarforseta háskóla Íslands.

Nú má segja, að skrifstofustjórarnir séu háðir ráðh. og því óeðlilegt, að leitað sé umsagnar þeirra. En hér er mikill vandi á höndum, og komu mér ekki aðrir menn betri til hugar, enda er hér uni að ræða embættismenn, sem sitja lengi í embættum og ættu að þekkja vel þær reglur, sem til eru, og þær hefðir, sem gilda um þessi mál. En ég er reiðubúinn að ræða þetta atriði við þá hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, ef hún vildi taka upp aðra skipun á þessum málum.

Um þau embætti, er lúta forstöðuembættum, ei gert ráð fyrir, að leitað sé umsagnar þess manns, sem hefur forstöðuembættið á hendi, en auk þess, að fráfarandi embættismanni sé gefinn kostur á að láta í ljós álit sitt á því, hver hann óskar að taki við embættinu.

Í 7. gr. frv. er ákvæði um, hversu meta skuli hæfni umsækjanda til embættis, og er þar gerður greinarmunur á þeim embættum, sem krefjast sérþekkingar, og þeim, sem ekki krefjast þess.

Um fyrri flokkinn er rétt að leggja höfuðáherzlu á, að sá verði valinn í embættið, sem fullnægir bezt kröfum um menntun og sérþekkingu, en ef slíks er ekki krafizt, skuli embættisaldur mestu ráða, þegar valið er milli umsækjenda, og verður að telja það réttlátt, ef um marga hæfa menn er að ræða. Þetta virðist og vera sanngirniskrafa gagnvart þeim, sem nú eru í þjónustu ríkisins, en óska að skipta um embætti, en ég vil taka það skýrt fram, að ekki er ætlazt til, að þessi regla sé látin ráða um þau embætti, sem krefjast sérþekkingar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál að sinni, en vænti þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. Ég tel hér um þýðingarmikið mál að ræða, því að embættaveitingar hafa verið með þeim hætti, að eitthvað verður úr að bæta, annaðhvort með l. eða bíða þess, að hefð skapist um þær, og vænti ég, að hv. n. taki málið til rækilegrar athugunar.