28.10.1946
Efri deild: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3970)

28. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Það er svipað að segja um þetta frv. og það frv., sem var til umr. hér næst á undan. Frv. hefur verið flutt áður og er þess vegna hv. þm. kunnugt. Það er einnig samið af mþn., sem skipuð var samkv. sérstakri þál. til þess að rannsaka þessi mál, kynna sér þau og gera um þau tillögur, og er frv. niðurstaðan af athugunum þeirrar nefndar.

Við iðnfræðslu er hægt að fara tvær ólíkar leiðir, að hafa skólakennslu fyrir iðnaðarmennina eða svokallaða meistarakennslu. Skólakennsla hefur ekki tíðkazt hér á landi fyrir iðnaðarmenn og er raunar sjaldgæf líka úti um heim, þannig að þar er nú meistarakennsla langmest ráðandi, þannig að flestir iðnaðarmenn fá kennslu sína hjá meisturum. En auk þessarar verklegu kennslu, sem þeir fá hjá meisturum, er komið fyrir bóklegri kennslu í skólum, þar sem þeir fá tækifæri til að stunda nokkurt bóklegt nám. Þá er og gert ráð fyrir, að komið verði upp sameiginlegri yfirstjórn þessara mála, er nefnist iðnfræðsluráð og hefur það hlutverk á hendi að vera til eftirlits og íhlutunar um þessi mál. Er t.d. gert ráð fyrir, að það skuli halda uppi leiðbeiningastarfsemi um stöðuval, en eins og kunnugt er, er slíkt starf ekki til hér nú sem stendur. Erlendis hins vegar er svo fyrir mælt, að þegar íbúatala borganna er komin yfir vissa tölu, sé skylt að hafa stofnanir, sem leiðbeini ungum mönnum um það, hvaða störf þeir skuli takast á hendur, með tilliti til hæfileika þeirra og atvinnumöguleika í einstökum greinum. Gert er ráð fyrir að fara inn á þetta með þessu frv., og tel ég það mikið til bóta. Þá er og gert ráð fyrir, að iðnfræðsluráð haldi skýrslur eða fylgist með þróun iðngreinanna, og er það auðvitað mjög mikils virði. Þá er og iðnfræðsluráði falið að skera úr um það, hverjir megi kenna og hverjir megi njóta kennslunnar og hvað margir, en numin burtu ákvæði, sem voru um það í eldri l. Þetta ætti að mæta þeim kröfum, sem uppi hafa verið um það að bæta úr þessum ágöllum gömlu l., sem eru orsök þess, að málinu var hreyft hér í þessu formi.

Fleiri smáatriði eru ný í frv., sem skipta ekki höfuðmáli, og skal ég því láta vera að fara í að ræða þau, en vil láta í ljós þá ósk, að þessu máli verði hraðað, svo að það þurfi ekki að daga uppi á ný, því að það felur í sér verulegar breyt. til bóta frá þeim l., sem nú gilda. — Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.