28.10.1946
Neðri deild: 6. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (4011)

20. mál, vinnumiðlun

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er flutt á þskj. 26, er um hreyt. á l. nr. 4 1935, um vinnúmiðlun. Með frv. er lagt til, að sú breyt. verði gerð á gildandi ákvæðum um stjórn vinnumiðlunarskrifstofa, að í stað þess, að viðkomandi bæjarstjórn kýs 2 menn af 5, kýs hlutaðeigandi bæjarstjórn 3 menn, þ.e.a.s. meiri hl. af stjórn skrifstofunnar. Gildandi ákvæði eru þannig, að bæjarstjórn kýs 2 menn, starfandi verkalýðsfélag á staðnum eða fulltrúaráð verkalýðsfélaga einn mann, félag atvinnurekenda einn mann og atvmrh. skipar 5. mann, sem jafnframt er form. stjórnarinnar. Ég tel sjálfsagt, að þessi breyt. verði gerð. Vinnumiðlunarskrifstofur eru kostaðar að 2/3 hlutum af bæjarsjóði, en einungis að 1/3 úr ríkissjóði. Starfsemi vinnumiðlunarskrifstofanna er hreint bæjarmál, sem hefur haft mjög verulega þýðingu fyrir bæjarfélögin, og tel ég, að skrifstofur þessar hafi mikilvægu hlutverki að gegna innan bæjarfélaga, þar sem þeim hefur verið komið á stofn, og mér finnst eðlilegt, að bæjarstjórnirnar hafi úrslitaáhrif á stjórn þeirra. Það er ætlazt til, að framvegis gildi sömu ákvæði og verið hafa, að bæjarstjórnirnar kjósi þessa menn með hlutfallskosningu.

Ég vil að lokum benda á það, að ég tel æskilega þá þróun, sem vart hefur orðið á síðari árum, að gera bæjarfélögin nokkuð óháð. Það eru uppi raddir um það að gera einstaka fjórðunga landsins óháðari ríkisvaldinu en þeir hafa áður verið, og tel ég þá stefnu athyglisverða, þótt þeim málum sé ekki langt komið. Ég tel það, sem hér er farið fram á, vera í samræmi við þessa stefnu og miða að því að gera bæjarfélögin óháðari um stjórn stofnana sinna.

Ég tel mig ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta mál. Hér er um sanngirnismál að ræða, sem ég tel, að ekki þurfi að deila um. Ég vona því, að það fái góðar undirtektir hjá hv. d., og vil óska, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.