06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað lesið þetta frv., vegna þess að ég var fjarverandi vegna lasleika í gær, er frv. var lagt fram. Ég hef því ekki getað séð það fyrr, en nú. Ég vil samt segja um það nokkur orð, áður en það fer til n. Ég vil fyrst geta þess, að mér virðist við fyrstu sýn, að sú stefna, sem tekin er upp í frv., sé ekki mjög frábrugðin því, sem verið hefur að undanförnu. Að vísu sagði hæstv. landbrh., að sá munur vært á stefnu þessa frv. og þess, sem um þetta væri í eldri l.. að hin eldri l. gerðu ráð fyrir að hjálpa mönnum til að reka fjárbúskap áfram, þótt veikin væri viðvarandi í bústofninum, en samkv. þessu frv. væri stefnt að því að hjálpa mönnum til að losna við veikina. Það má kannske segja það, að í hinum eldri l. sé að forminu til ekki tekin upp nein ákveðin stefna um það, hvernig taka skuli á þessum málum, að öðru leyti en því, sem fólst í þeirri aðstoð, sem l. gerðu ráð fyrir þeim mönnum til handa, sem reka búskap á þeim svæðum, sem veikin geisar á. En sú stefna, sem var ráðandi á fyrstu árum þessarar veiki, var sú að aðstoða bændur, meðan verið væri að rannsaka veikina og reyna að komast fyrir rætur hennar til þess að leita ráða til að losna við hana. Þessi viðleitni leiddi smátt og smátt í það horf að reyna að koma upp ónæmum stofni, m.a. með því að reyna að koma upp ónæmum, innlendum stofni. En tilraunir, sem sauðfjárræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands hafði gert, virtust benda til þess, að hægt væri að finna þá íslenzka fjárstofna, sem væru svo ónæmir fyrir veikinni, að unnt væri að búa og hafa fjárbúskap, þótt veikin yrði landlæg. Nú hefur það sýnt sig, eftir því sem þessar tilraunir hafa verið gerðar lengur, að það er mjög hæpið, að hægt sé að útrýma veikinni með þessum aðferðum. Þá var rætt um það í Búnaðarfélagi Íslands að gefnu tilefni að gera tilraunir til að minnka næmi eða auka ónæmi íslenzks sauðfjárstofns með því að blanda hann útlendu kyni. Lítils háttar tilraunir hafa verið gerðar af einstökum mönnum, og benda þær til þess, að hér sé um leið að ræða, sem gerlegt væri að reyna. Samþ. var till. í Búnaðarfélagi Íslands um að gera tilraunir með að flytja inn hrúta af erlendu kyni og einangra þá í eyjum nálægt Reykjavík eða annars staðar og gera tilraunir í þá átt að athuga, hvort ekki væri hægt að koma upp nýjum stofni af íslenzku og erlendu kyni, sem væri það ónæmur fyrir þessari veiki, að unnt væri að reka sauðfjárrækt, þótt veikin yrði landlæg. Þessum till. var hreyft í báðum landbn. Alþ. í fyrra. Eftir því sem mér virtist, þá hallaðist núverandi hæstv. landbrh. að því, að þessi tilraun væri reynd, og var ég sömu skoðunar. En vegna þeirrar mótstöðu, sem fram kom innan beggja n. og frá yfirdýralækni landsins gegn þessum tilraunum, þá féll ég frá fyrir mitt leyti að halda málinu til streitu eða greiða atkv. með því innan n. Það varð svo ofan á á s.l. þingi að taka nokkurn hluta af landinu, þar sem veikin hafði herjað hvað mest, og efna þar til fjárskipta, sem framkvæmd eru nú á þessu ári. Það mun vera skoðun margra manna, og það kom fram hjá hæstv. landbrh. nú, að með þeim ákvörðunum, sem Alþ. tók, þá væri hér orðin stefnubreyting, þannig að nú væri ekki um annað að ræða, en fjárskipti almennt, en með því væri meiningin að útrýma veikinni úr landinu og koma upp íslenzkum, heilbrigðum fjárstofni í staðinn fyrir þann, sem sýktur er af veikinni. Ég bjóst því við, þegar nýtt frv. kæmi fram um þetta mál, að þá yrði sú stefna, sem tekin hefur verið, ráðandi í því. En ég sé við fljótan yfirlestur, að svo er ekki. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að vinna að útrýmingu veikinnar með því að útrýma sýktum fjárstofnum og koma ósýktum stofnum upp í þeirra stað. En þar er líka gert ráð fyrir því að gera þetta með kynbótum og tæknifrjóvgun frá erlendum sauðfjárkynjum, er inn kunna að verða flutt í þeim tilgangi. Þetta er sem sagt nákvæmlega það sama og Búnaðarfélagið lagði til á s.l. þingi, en fékk ekki náð fyrir augum Alþ. Það má segja, að stefnubreyting sé með þessum l., að inn í þau er nú tekið, að koma skuli á fjárskiptum innanlands. En mér virðist það liggja í hlutarins eðli, að aðalatriðið verður í þessu máli kynbæturnar og tæknifróvgunin, það verði aðalráðið og aðferðin til þess að útrýma veikinni. Það segir sig sjálft, að það er ekkert vit í því að ætla sér að ráðast í það stórfellda fyrirtæki sem fjárskiptin eru, en halda svo áfram dýrum aðferðum til þess að koma á í landinu kynbótum með tæknifrjóvgun. Þetta getur ekki farið saman. Ef það tækist að gera stofninn ónæman með því að koma á tæknifrjóvgun af erlendum kynstofnum, þá segir það sig sjálft. að með því skapast meiri mótstaða gegn fjárskiptum í hinum sýktu héruðum, en ella. Það er gert ráð fyrir ákveðnum meiri hluta innan hvers héraðs, sem samþykki fjárskiptin, til þess að þau geti komizt á. Ef það sýnir sig, að fjárstofninn bætist með þessum kynbótum og verður ónæmari fyrir veikinni, þá leiðir það af sjálfu sér, að það getur orðið fullkomin stöðvun á fjárskiptum innanlands. Sem sagt, þetta ákvæði að halda áfram tæknifrjóvgun og kynbótum eyðileggur hitt atriði málsins, að skipta alveg um fjárstofn í landinu. Ég lít svo á, að það sé aðalatriði þessa frv. að halda áfram tæknifrjóvguninni og kynbótunum, og að svo framarlega sem það tekst, þá séu fjárskiptin úr sögunni. Þetta getur ekki farið saman, nema tæknifrjóvgunin og kynbæturnar misheppnist. Ef hún heppnast ekki, þá kemur til fjárskipta. En komi hún að liði, þá eru fjárskiptin úr sögunni. Ég tel því, að hér hafi ekki orðið sú stefnubreyting, sem gert var ráð fyrir, þegar till. Búnaðarfélagsins var vísað á bug. Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál að sinni. Ég hef ekki lesið frv. í einstökum atriðum, en þetta virðist mér ljóst, að sé aðalstefna þessa frv. Ég er ekki á móti því, að þeirri stefnu sé haldið lengur áfram. Ég vil sem sagt vekja athygli á því, að þetta frv. er ekki frv. til l. um fjárskipti, heldur um það að gera innlenda stofninn ónæman fyrir veikinni. Mér finnst það vera augljóst aðalatriði þessa frv.