01.11.1946
Neðri deild: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (4054)

37. mál, orlof

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv„ því að í grg. er tekið fram flest þar að lútandi. Aðeins skal það tekið fram, að frv. er flutt vegna almennra óska sjómanna og að tilhlutun Alþýðusambands Íslands. Samkv. núverandi l. um orlof fá hlutarsjómenn aðeins hálft orlof. Þetta telja sjómenn ósanngjarnt og krefjast fulls orlofs eins og aðrar stéttir. Um seinni breyt. skal það tekið fram, að samkv. 15. gr. orlofslaganna, eins og þau eru nú, fyrnast kröfur um orlof, ef þær hafa ekki verið viðurkenndar eða lögsókn hafin, áður en næsta orlofsár er liðið, frá því að kröfurnar voru bornar fram. Hafa margir launþegar orðið fyrir skaða vegna þessa ákvæðis. Ýmsir, sem kunnugir eru l. um fyrningu kaupkrafna, hafa reiknað með og talið sjálfsagt, að sama gilti og um önnur launalög. Með hliðsjón af þessu teljum við, að framkvæma eigi l. eins og lög almennt, þannig að kröfur fyrnist eins og í öðrum l.

Ég vildi mælast til, að hv. d. taki þetta til athugunar og málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.