06.11.1946
Neðri deild: 11. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi fyrst segja fáein orð út af ræðu hv. þm. Ak. Það er mikill misskilningur hjá honum að gera ráð fyrir því, að n. hafi viljandi þrengt hans kosti um valdsvið sem yfirdýralæknis, heldur þvert á móti lagði n. sig fram — ekki reyndar til þess að gera neinar velvildarráðstafanir, heldur af því að henni þótti það eðlilegt — til þess að sjá um, að yfirdýralæknirinn fengi aðstöðu til þess að hafa einangrunarstofnun til umráða, sem getið hefur verið, með því að yfirdýralæknirinn er oft í vandræðum með aðrar skepnur en sauðfé, sem eru fluttar inn. Hitt getur vel verið, að það komi í ljós, að það þurfi að ákveða að einhverju leyti aðra verkaskiptingu milli n. og yfirdýralæknisins, en nú er gert ráð fyrir í

þessu frv., eins og það liggur fyrir. En það eru atriði, sem auðvelt er að lækna. Og ekkert er það í frv., sem sé sett þar til þess viljandi að þrengja að yfirdýralækninum sem embættismanni.

Um karakúlnafnið, sem hann gat um, á sauðfjársjúkdómunum er það að segja, að það er enn ekkert fastákveðið nafn til á þessum sjúkdómum í heild, sem menn vita ekki annað, en að hafi komið með þessum karakúlkindum. Þess vegna var þetta nafn sett fram. Það var að vísu hægt að hafa 2 til 3 nöfn önnur á þessu. En þetta er ákaflega lítið atriði. En, eins og hv. þm. A-Húnv. hefur tekið fram, þá hefur hv. þm. Ak., yfirdýralæknirinn, neitað því, að það væru nokkrar fjársýkir hér venju fremur miðað við fyrri tíma. Ég vildi óska, að hann hefði þar á réttu að standa. En ég verð nú að segja það, að mér er nóg til sönnunar hinu gagnstæða að vita, hvernig ástandið er í þessu efni, og til dæmis um það nefni ég það, að á einum bæ í mínu kjördæmi voru af 100 ám, sem þar voru áður en fjárpestirnar komu, 90 dauðar vegna fjárpestanna eftir fjögur ár. Þetta er kannske heldur örari fellir af þeirra völdum en það, sem vanalegast má telja. En þeir, sem búið hafa við mæðiveikina, eru algerlega á annarri skoðun en hv. þm. Ak., yfirdýralæknirinn. og því miður hallast yfirleitt allur landslýður að því, að dýralæknirinn hafi þarna á röngu að standa og að hér sé um nýja fjárpest að ræða, sem ekki hafi verið í landinu áður.

Mér fannst kenna misskilnings hjá hv. þm. Mýr., sem ég held líka, að hafi gert viðar vart við sig, nefnilega viðvíkjandi þessu tvennu, tilraunum til þess að viðhalda þeim gamla íslenzka sauðfjárstofni. sem ég tel vera aðalatriðið í frv., og svo því, sem er aukaatriði í frv., en vel mætti vera aðalatriði, að það er gert ráð fyrir innflutningi erlendra hrúta. Því hefur verið haldið fram af öðrum miklum mönnum, en hv. þm. Mýr., að ef farið væri að hafa tæknifrjóvgun við blöndun sauðfjárkynja og fjárrækt, mundi bændum lítast svo vel á það, að þeir mundu falla frá því að skipta á veiku og heilbrigðu fé, og þar af leiðandi yrði útkoman sú, að útlendur sauðfjárstofn mundi koma í staðinn fyrir þann innlenda með tímanum. Að þessu virtist yfirdýralæknirinn hallast. Ég hygg, að þetta sé ekki stefnan almennt, heldur vilji bændur halda sínum gamla fjárstofni og bæta hann, en skoði það sem neyðarúrræði, ef það þyrfti að eyðileggja hann og taka útlendan stofn eða stofna í staðinn. Þegar litið er á það, hvernig þessum sauðfjársjúkdómum er varið, þá er ekki að mínu áliti hægt að treysta eingöngu á fjárstofninn, vegna þess að enn hefur ekki tekizt að finna neinn svo hraustan sauðfjárstofn, að treysta megi því, að hann standist veikirnar. Það er nú tiltölulega lítill hlutu af landinu, sem hefur fjárstofn, sem treysta má örugglega, að sé heilbrigður af þessum pestum. Það er meiri partur Vestfjarða. En samt verða bændur næst Bitrufirði að búa við að hafa veikar skepnur af a.m.k. einni þessara pesta. En þaðan er sauðfjárveiki (mæðiveiki) um allt landið, austur að Eyjafirði að norðan og í Rangárvallasýslu að sunnan. Svo er garnaveiki víða á Austfjörðum, og er mjög erfitt að finna henni takmörk, því að hún stingur sér niður viða um báðar Múlasýslur. Sterkasta varnarlína landsins, Þjórsá, bilaði, og nú er gert ráð fyrir að reyna að verja Vestur-Skaftafellssýslu með varnarlinu við Fúlalæk og að Fjallabaki fyrir þeirri hættu, sem stafar af Rangárvallasýslu. Hvort það má takast, skal ég ekki segja um. En þegar litið er á það, hve fáir fjárheilbrigðir blettir eru á landinu, og á þá erfiðleika, sem því eru samfara að glíma við fjárpestirnar, þá virðist mér það, sem hv. fjmrh. sagði í vor í þessu sambandi. kjarni málsins. Hann hafði lagt málið fyrir okkur í mþn. á þeim grundvelli — og við vorum a.m.k. tveir okkar nefndarmanna, formaður n. og ég, samdóma þeim grundvelli —, að okkar gamall, íslenzki fjárstofn sé í svo gífurlegri hættu, af því að sauðfjárveiki er svo víða á landinu, að ómögulegt er að segja, hvað verður úr honum, ef því fer fram, sem hingað til hefur verið. Ég veit um marga bændur í Húnavatnssýslu, Borgarfirði og viðar, sem ekki geta haldið við stofni 100 áa með minna, en 50 gimbrarlömbum á ári, og það sjá allir, að þetta er alls ekki viðunandi atvinnurekstur. Og hæstv. ráðh. hélt því fram s.l. vor, að eins og nú er, sé ekki hægt að vita, í hve mikilli hættu okkar íslenzki fjárstofn er. Enn hefur ekki tekizt að finna meðal íslenzka sauðfjárins neina ónæma stofna, svo að byggjandi sé á því, og menn hafa a.m.k. ekki fundið neitt annað bráðabirgðaráð, en fjárskipti. Þess vegna studdi hæstv. landbn. í vor samsveitunga mína í þessu efni mjög drengilega. Og ef þetta hefði ekki verið gert, ef fjárskipti hefðu ekki verið höfð þar, þá væri að líkindum um það bil hálf Suður-Þingeyjarsýsla nú mjög nærri því að fara í eyði, þannig að ég get ekki annað, a.m.k. út frá kjördæmasjónarmiði séð, en verið þakklátur fyrir, að það tókst að gera þessa tilraun þarna. En erfiðleikar eru samt að koma þarna fram, þó að ég voni, að þeir verði ekki til stórskaða.

En hæstv. landbrh. sagði einnig í vor við okkur, að samhliða því, að með veikri aðstöðu yrði fjárskiptamálið tekið fyrir, þá yrði það að athugast, hvort við ættum ekki að flytja inn útlendan fjárstofn eða fjárstofna, og minntist á það að flytja inn hrúta, sem einangraðir væru í einangrunarstofnun, t.d. í Engey eða Viðey, og beita tæknifrjóvgun í sambandi við það. Menn segja, að með því að beita þannig tæknifrjóvgun sex sinnum í sömu ætt, sé kominn erlendur stofn inn, án þess að meiri tæknifrjóvgun eigi sér stað. Og t.d. Eyfirðingar hafa óskað þess og um það skrifað sauðfjársjúkdóman., og ég held ríkisstj. líka, að í Hrísey verði gerðar tilraunir með útlent sauðfé, sem þeir hugsa sér — alveg gagnstætt því, sem yfirdýralæknirinn vill — að verði haft í sóttkví í tvö ár og skepnurnar síðan beinlínis fluttar út um landið.

Samkv. því, sem hæstv. landbrh. sagði í fyrra, og samkv. þessu frv. er það því stefnan að reyna að bjarga okkar gamla, íslenzka fjárstofni og við hliðina á því að gera tilraunir með tæknifrjóvgun, sem er seinvirk aðferð. Og tæknifrjóvgunin er svo seinvirk og óviss aðferð, að það eru ekki minnstu líkur til, að hún reki sig á hitt, að gera ráðstafanir til þess að viðhalda gamla stofninum. Ef bændur vilja heldur skipta á fé, þannig að fá fé af heilbrigðum svæðum í stað þess sýkta, hvers vegna mega þeir ekki gera það? Nú standa vonir bænda á mestöllu Norðurlandi og í Dölum yfirleitt algerlega til þess að skipta um sauðfé, og það hefur verið sótt fast að skipta um féð nú á allra næstu missirum. Ég hef frétt, að bændur í Hegranesi skeri niður allt sitt fé og ætli að hafa Hegranesið sauðlaust í tvö ár. Bændur eru svo sannfærðir um, að þeir geti ekki lagt út í fjárskipti, án þess að gengið sé frá ákvæðum um það í fjárskiptalögum.

Elztu fjárskipti, sem gerð hafa verið á landinu sem tilraun, voru gerð á Heggstaðanesi. og var þangað flutt fé úr Þingeyjarsýslu. Þetta hefur gengið vel, nema á einum bæ á nesinu kom sauðfjárveiki upp. Þar var landið afgirt, og var öllu fénu þar slátrað og skipt um fé. Síðan hefur ekkert borið á sauðfjárveiki á þessu svæði. En þetta, að veikin kom þarna upp, sýnir, hve grunur hæstv. landbrh. er réttmætur um það, að erfitt sé að hafa vissu um, að fjárskipti hafi í raun og veru tekizt. En elztu fjárskipti í Þingeyjarsýslu voru í Reykdælahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu haustið 1941. Þar var ekki hentug aðstaða vegna vatna til að einangra svæðið, heldur girt utan um einn hrepp. Þá var fé sótt í vestanverða Þingeyjarsýslu. Þessi fjárskipti tókust vel. Þangað var t.d. flutt fé af Svalbarðsströnd, sem varð eins vænt og fé hafði verið áður í þessum hreppi, sem fjárskiptin voru í, og efnahagur manna blómgaðist þar, eins og bezt gat orðið. Í þeirri girðingu kom þó veikin tvisvar upp aftur, en það var á sérstaklega afgirtu svæði austan Laxár, þar sem eru þrjú eða fjögur heimili. Var þar slátrað öllu fé og skipt um. En þrátt fyrir þessar misfellur er ekki vafi á því. að bændur í þessum hreppi verjast sauðfjárveikinni miklu betur, eftir að fjárskiptin voru gerð, heldur en áður, og þeir mundu skipta um fjárstofn þar aftur, ef sauðfjárveiki kæmi þar upp. Þeir, sem þarna búa, eru sannfærðir um, að ekkert annað en heilbrigður stofn getur þeim dugað. Af reynslunni, sem fékkst af þessum fjárskiptum, er það sýnt. að það er ekkert vit í að hafa mjög stór svæði afgirt í einu lagi.

Þriðju fjárskiptin voru svo gerð í sömu sýslu 1944 og 1945, og var þá lokið fjárskiptum á öllu svæðinu milli Jökulsár á Fjöllum og Skjálfandafljóts.

Þá vil ég ræða það, að hv. þm. Mýr. taldi, að hægt væri með tæknifrjóvgun að koma upp nýjum fjárstofni af erlendu kyni eða kynjum. Af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af skozka fénu, sem flutt var inn á undan karakúlfénu og engin veiki kom með, sést, að það fé hefur þolað veikina betur, en íslenzka féð, en er þó ekki ónæmt fyrir henni. En það er engin reynsla komin fyrir því, að Þingeyingar gætu búið við þetta fé. Það hefur engin reynsla fengizt um það á afréttum, því að þangað hefur það ekki verið rekið enn, og það getur siður bjargað sér úti, en okkar fé. Það er mjög breitt yfir bakið, og ef það leggst afveita, getur það miklu síður reist sig við aftur, en okkar fé. Er þetta dæmi um það, að við vitum ekki, hvernig ýmis sauðfjárkyn mundu gefast, sem flutt væru inn. Að öðru leyti er það fremur hlutverk búfræðinga og lækna, en mitt að segja um það, hvort tiltækilegt mundi að beita tæknifrjóvgun. Það er álitið mjög hættulegt að blanda saman mjög ólíkum stofnum, og gæti svo farið, þótt ekki væri um veikindi að ræða, að út af því fengist mjög lélegt fé. En ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Mýr. mundi sætta sig við, að hér á landi væru tveir til þrír sauðfjárkynstofnar, íslenzka féð, sem reynt væri að verja og bæta, og svo útlendir stofnar til reynslu, því að ég þori ekki að vona, að blöndun, nema til slátrunar, geti komið til greina. Eins og hæstv. ráðh. tók fram. bæði í fyrra og nú, í sambandi við þetta mál sem sina meiningu — og það er einnig meining okkar allra nefndarmanna í mþn. —, þá eigum við að hafa íslenzka féð sem aðalstofn og reyna að verja hann og bæta, en jafnframt fá fé af erlendum stofni og sjá svo bara, hvað hægt er að gera í málinu.