29.05.1947
Neðri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (4159)

96. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. sjútvn. með fyrirvara.og.vil með nokkrum orðum gera grein fyrir honum.

Í þessu áliti meiri hl. er lagt til, að frv. verði fellt. Ég vil taka það fram, að ég hef talið það mjög æskilegt, að hægt væri að stytta vinnutíma á togurum, og vil, að framvegis verði athugaðir möguleikar til þess, en ég tel eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í málinu, að ekki sé unnt að samþykkja þetta frv. nú, eins og það liggur fyrir. Það verða að vera þær ástæður fyrir hendi, að þetta sé framkvæmanlegt, en það virðist ekki vera nú eftir upplýsingum frá þeim aðilum, sem mesta þekkingu hafa á þessu máli. Það hefur t.d. komið hér fram í bréfi frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna til sjútvn. Nd., að á hinum nýju togurum, sem nú eru að koma til landsins, sé ekki rúm fyrir svo marga menn sem þyrftu að vera, ef frv. þetta yrði að l., og má gera ráð fyrir, að það sé enn síður á hinum eldri skipum. Það sjá allir, að það er ekki hægt að taka fleiri menn á skipin en rúm er fyrir.

Minni hl. sjútvn., hv. þm. Siglf., hefur gefið út sérstakt álit um málið á þskj. 693 og flutti ræðu um málið er 2. umr. hófst, en það er orðið alllangt síðan.

Hann hafði stór orð og talaði um þröngsýna menn og komst út í að ræða um þrælahald, a.m.k. fyrr á tímum, talaði um smánarblett o.s.frv. Hann viðurkennir í nál. sínu, að það muni vera rétt, sem Landssamband ísl. útvegsmanna heldur fram, að ekki sé rúm fyrir þá menn á togurunum, sem þyrftu þar að vinna, ef frv. væri samþ., en segir síðan, að það sé hörmulegt til þess að vita, ef rétt sé, að ekki sé nægilegt mannapláss á nýju togurunum, til þess að kleift sé að lögfesta 12 stunda hvíldartíma. Hann segir enn fremur í nál. sínu, að einn maður frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sigurjón Á. Ólafsson alþm., hafi verið í n. á sínum tíma til þess að gera till. um fyrirkomulag á nýju togurunum um aukið mannapláss, og gefur hann í skyn, að þarna hafi ekki verið staðið vel á verði til að gæta hagsmuna sjómanna. En þetta virðist mér benda til þess, að yfirmaður allra þessara n., sjútvmrh., hafi ekki gætt þessa eins og maður skyldi ætla eftir þeim ummælum og ásökunum á alla, sem hann hreyfði hér víð umr. Hvar var hann staddur, yfirmaður sjávarútvegsmála, þegar verið var að ákveða fyrirkomulagið á þessum togurum? Hann virðist ekki hafa fylgzt með því, hvernig þeir voru útbúnir að því er mannapláss snertir, og það er eins og hann komi af fjöllum hér nokkrum mánuðum eftir, að hann fór úr ráðherrastól, og segir, að það sé hörmulegt til þess að vita, að ekki sé til nóg mannapláss á nýju togurunum, — hann hefði kannske átt að athuga það fyrr, hv. þm., meðan hann var í ríkisstj. og yfirmaður allra þessara mála þar. Ég sé því ekki betur en að allar þessar ásakanir, sem hann hér við umr. beindi að öðrum mönnum, lendi fyrst og fremst á honum sjálfum, fyrrv. sjútvmrh. Nú væri fróðlegt að heyra, þegar fyrrv. sjútvmrh. (ÁkJ) fer að svara hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og færa fram varnir, ef einhverjar eru, á móti þeim ásóknunum, sem hann beindi til fyrrv. sjútvmrh. í ræðu sinni um þetta mál. Ég skal enn fremur benda á það í sambandi við þær áskoranir, sem borizt hafa frá sjómönnum á togurum í sambandi við þetta frv., að ég geri ekki ráð fyrir, að málið hafi verið lagt fyrir á þann hátt, að þeir hafi verið um það spurðir, hvort þeir vildu, að frv. yrði samþ., ef það hefði í för með sér kauplækkun. Hefði ég búizt við því, að till. þeirra um málið til Alþ. mundu vera nokkuð með öðrum hætti, ef þeim hefði verið þetta ljóst. En ef mönnum er fjölgað til muna á togurunum, þegar þeir eru á ísfiskveiðum, hljóta tekjur þeirra að minnka vegna þess, að eftir því sem menn eru fleiri, eftir því mundi hver þeirra fara færri ferðir með fiskinn til útlanda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vildi ekki láta málið afskiptalaust hér í umr. vegna þess fyrirvara, sem ég hafði við afgreiðslu málsins í sjútvn.