23.05.1947
Neðri deild: 142. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (4161)

96. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jörundur Brynjólfsson:

Það er vafalaust engum efa bundið, að ef sjómenn þurfa að vinna 16 stundir í sólarhring dag eftir dag og máske viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, þá er það sú þrekraun, sem er ofvaxin nokkrum manni að standast eða koma óskemmdur frá. Þó að þetta kunni að vera með nokkuð öðrum hætti meðal sjómanna, að ekki séu vinnubrögðin þetta hörð, þá verður þó ekki annað viðurkennt en að oft og einatt er hvíldartími þeirra minni en skyldi. Það verður a.m.k. að vænta þess, að þess sé gætt, að vinnuþol þessara manna sé ekki stórkostlega lamað eða eyðilagt, og víst er um það, að á einni tíð var sjómannastéttinni á togurum stórkostlega misboðið með því, hvað heimtuð var af henni löng vinna og hvað hún naut lítillar hvíldar. Úr því var bætt að nokkru með þeirri löggjöf, sem nú er í gildi, en vel má vera, að komið geti fyrir þau tímabil, sem þetta nægi ekki og vinna sé helzt til löng. Í áliti minni hl. er vitnað til þess, hvað aðrar stéttir hafi mikla hvíld og hvernig ástatt sé um vinnutíma þeirra, og lýtur það þá aðallega að verkamönnum, sem vinna á eyrinni, við vegagerðir og annað þess konar, og eins fólki, sem vinnur á skrifstofum og við önnur ámóta störf. En það eru fleiri stéttir í þessu þjóðfélagi, sem ber einnig að taka tillit til, og þá hygg ég, að það verði ekki um það sagt — þar á ég við fólk, sem vinnur til sveita —, að þess vinnutími sé aðeins 8 stundir. Hann er miklu lengri, og það eru líka erfið störf. Af hálfu þess fólks hafa ekki komið fram neinar kröfur um auknar ráðstafanir því til handa, svo að það þyrfti ekki að ofþjaka sér með vinnu sinni. Það má máske segja, að margt af því sé nokkuð sjálfrátt um það, hvað það leggur að sér við slík störf. Það er nú svo, að við störf úti um byggðir landsins, sérstaklega við sveitavinnu, þá eru húsbændurnir á heimilunum og skyldulið þeirra, en heldur fátt orðið um vandalaust fólk nema nokkurn tíma úr árinu og þá aðallega á sumrin. Sá vinnutími mun líka reglubundinn nú orðið út um byggðir landsins og jafnvel stuttur oft og einatt. Þetta fólk verður oft að vinna og einmitt þeir, sem heimilunum halda uppi og annast heimilishald, verða að gera það af brýnni nauðsyn, og það er einatt eins hjá þeim og sjómönnunum, að það verður að vinna jafnt helga daga sem virka og getur mjög sjaldan tekið sér nokkra hvíld, þannig að það eigi heila daga fría. Störfin eru þess eðlis, að það þarf að leysa þau af hendi eins helga daga og virka, fólkið verður að sinna þeim. Það er þá þann veg háttað í okkar þjóðfélagi um vinnutíma þessara stétta, sem tilvera þjóðarinnar fyrst og fremst byggist á, að þær hafa langsamlega lengstan vinnudag, — fólkið úti um byggðir landsins, sem vinnur að sveitastörfum og framleiðslunni þar, og sjómennirnir við sjóinn, sem draga verðmæti úr skauti ægis, sem þjóðin verður að mjög miklu leyti að byggja tilveru sína á. Það er þess vegna engin tilviljun, að fólkið hefur leitað í seinni tíð að komast frá þessum störfum til léttari starfa, og hygg ég nú, að vert væri fyrir þá, sem gera nú kröfu til að lögbjóða 12 stunda hvíld hjá sjómönnum, að fara að skoða huga sinn um það, hvort þjóðfélagið þoli það, að lögbjóða 7–8 stunda vinnudag hjá öllum stéttum fólks.

Eftir þeim kunnugleika, sem ég hef, þori ég að staðhæfa, að þjóðarbúskapur okkar stenzt alls ekki slíka ráðstöfun. Það mundi enginn möguleiki verða á því. Sjávarútvegurinn mundi ekki þola þann kostnað, sem af því leiddi, ef það ætti að lögbjóða 7–8 stunda vinnu við þessi störf, og hvað landbúnaðinn áhrærir, þá er ég hræddur um, að framleiðslugetan gengi saman og það, sem framleitt væri, mundi verða það verðhátt, að neytendum mundi þykja það of dýrt, ef þeir ættu að borga það, sem sú vara kostaði. Að það stafar ekki af úreltum atvinnuháttum og úreltum tækjum, getur hver sagt, sem þekkir til þess, því að þeir einstaklingar, sem nú hafa allt land véltækt og vinna með nýtízku tækjum og hafa í engan stofnkostnað ráðizt, hjá þeim er það svo, að t.d. mjólkurframleiðendur verða að reikna mjólkina með hærra verði en bændum er greitt nú.

Nú kann einhver að spyrja: Af hverju er þá búskapur rekinn hér? Þetta er einfalt mál. Þetta stafar af því, að sú stétt, sem þessi störf vinnur, hefur miklu lengri vinnudag og hefur minna fyrir hverja vinnustund en þeir, sem vinna verkamannavinnu, vegavinnu, skrifstofustörf og annað þess konar.

En þó að þannig sé ástatt með þessi mál, sem eru íhugunarverð og þess eðlis, að hv. þm. ber að gefa þessu glöggar gætur, þá er það eigi að síður ekki rétt eftir minni meiningu að gera engu frekari athuganir en enn er komið fram um þetta mál, sem hér er til umr. og nú á að ganga til atkv. um. Ég get einmitt búizt við því, að um þann tíma árs, sem sjósókn er mest hjá togarasjómönnum, að þá sé með því fyrirkomulagi, sem er, heimtuð af þeim of mikil vinna og að það þyrfti að ráða nokkra bót á því frá því, sem er. Mig brestur kunnugleika til þess að geta dæmt um það, hvað mikið væri hægt að hliðra til fyrir sjómönnum og stytta vinnudag þeirra, án þess að til erfiðleika kæmi með rúm fyrir þá á skipunum og annað þess konar. Ég sé á erindi útgerðarmanna í nál. sjútvn., að þeir telja alveg ófært að lögbjóða frv. eins og það er, það mundi baka útgerðinni svo mikinn kostnað, að það væri ekki hægt undir því að rísa, og auk þess vitna þeir til þess, að það þyrfti að fjölga mönnum það mikið á skipunum, að skiprúm væri ekki til staðar fyrir þá, og af þeim ástæðum væri þetta ekki mögulegt. Ég þykist nú sjá af svari þeirra, að þeir miði við frv. eins og það er, og það er eðlilegt, því að annað liggur ekki fyrir. En einhver tilhliðrun mætti eiga sér stað, sem gæti orðið til þess að ívilna sjómönnum nokkuð í vinnubrögðum, án þess að til vandræða horfði með skiprúm fyrir þá á þessum skipum. Það er nú ekkert vafamál, að ef um ofþjökun er að ræða á vissum tímabilum, þá held ég, að það sé hæpið, að útgerðarmenn græði á því, þegar til lengdar lætur, og einmitt af þeim ástæðum held ég, að menn hér í d. eigi ekki að rasa fyrir ráð fram, þannig að vísa þessum óskum, sem bornar eru fram a.m.k. af einhverjum hluta sjómanna, algerlega á bug — það finnst mér of hvatvíslegt, og frá mínu sjónarmiði er þetta mál þess eðlis, að ég held, að það sé ekki vert fyrir d. að viðhafa þau vinnubrögð. Ég sé það bæði á rökstuðningnum fyrir þessu máli og öðru, að málið er hvergi nærri nógu vel úr garði gert, eins og vera ætti, þegar um slíkt stórmál, eins og segja má, að þetta sé, er að ræða. Af þeim kynnum, sem ég hef af líkamlegu erfiði og störfum í sveit, þá vil ég, að málinu sé mætt með fullkomnum skilningi, og ég treysti mér ekki með atkv. mínu að vísa þessu máli algerlega á bug án þess að frekari athugun fari fram um það. En sökum þess að ég geri ráð fyrir, að mörg verkefni liggi nú fyrir, sem þurfa að koma til ákvörðunar, þar sem mun vera um að ræða að ljúka þingi á morgun, þá ætla ég ekki að setja hér á langa tölu og fyrir það dreg ég saman mál mitt. En ég vil gera það að till. minni, að þessu máli verði vísað til ríkisstj., og vil af minni hálfu óska eftir því, að hún taki málið til gaumgæfilegrar athugunar og rannsaki og kynni sér viðhorf útgerðarmanna til þess og hvernig hægt væri að koma einhverri lögun á það að tryggja betur sjómenn á skipaflotanum og kynni sér jafnframt það mál sjómannastéttarinnar, hvernig ástatt er um vinnubrögð sjómanna nú. Þetta felli ég mig miklu betur við. Tíminn mun síðar meir leiða það í ljós enn betur en upplýst hefur verið nú til þessa, hvernig ástatt er um málið. Það held ég, að sé öllum aðilum fyrir beztu.